Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

„Við verðum að vera bjartsýn og halda áfram“

Mynd með færslu
 Mynd: Stjórnarráð Íslands - RÚV
Orkumálastjóri segir ekki nóg að framleiða meira af hreinni orku, það þurfi líka að hugsa framleiðsluferlið upp á nýtt og stóraauka áherslu á nýsköpun. Umbyltandi tækninýjungar hafi verið áberandi í umræðunni á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Glasgow, COP26. Hún segir ekki annað í boði en að fjárfesta nóg í þeim tæknilausnum sem þarf til að standa við markmið um kolefnishlutlausan heim fyrir árið 2050.

Mikið talað um að hugsa upp á nýtt

Halla Hrund Logadóttir, orkumálastjóri, er í Glasgow og hefur sótt hina ýmsu fundi um orkumál, síðustu viku. Á ráðstefnunni segist hún hafa orðið vör við endurtekið stef.

„Að það er ekki nóg fyrir okkur að horfa bara á að færast yfir í endurnýjanlega orkugjafa. Við þurfum að vera að hugsa upp á nýtt hvernig við getum aukið nýtni, hvernig við getum breytt framleiðsluferlum.“

Þannig megi nýta orkuna betur í anda þess hagkerfis sem nú sé verið að reyna að innleiða, hringrásarhagkerfisins. 

Gates og ESB í fjárfestingasamstarf

Halla sótti til dæmis fund Ursulu von der Leyen, forseta Framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, og auðkýfingsins Bills Gates. Gates hefur verið leiðandi í að fjárfesta í nýsköpun í gegnum fjárfestasamstarfið Breakthrough energy, en að því koma fjárfestar sem hafa áhyggjur af loftslagsvánni og vilja fjárfesta í uppfinningum sem hafa það að markmiði að færa heiminn nær kolefnishlutleysi.

„Þau tilkynntu að þau ætluðu með evrópska fjárfestingabankanum að efla fjárfestingar á þessu sviði, setja pening í að hugsa hvernig við getum verið að nýta hlutina betur, framleiða hluti með nýjum hætti og svo framvegis, það eru spennandi tímar hvað þetta varðar,“ segir Halla. 

epa06673281 US business magnate Bill Gates, Microsoft co-founder and co-chair of the Bill & Melinda Gates Foundation, at the Elysee Palace in Paris, France, 16 April 2018.  EPA-EFE/IAN LANGSDON
 Mynd: EPA
Bill Gates, meðstofnandi Microsoft, auðkýfingur, fjárfestir og annar eigenda Bill and Melinda Gates foundation.

Risavaxið verkefni

Halla Hrund segir að jarðvarmavæðing Íslendinga hafi á sínum tíma verið ein stór nýsköpunarvegferð og fyrirtæki eins og Carbfix sem breytir gasi í grjót og Carbon recycling International sem framleiðir metanól úr koldíoxíði, séu merki um grósku í dag. Það sé brýnt að þessi nýsköpunarhugsun verði í forgrunni hér á Íslandi, næstu áratugina.

„Við höfum gert marga góða hluti en núna, þegar við erum að horfa á að verða algerlega óháð jarðefnaeldsneyti, þá verður nýsköpunin að vera með í þeirri vegferð. Áherslan á nýsköpun,  heima og erlendis, er mikil og hún þarf að vera miklu meiri ef við ætlum að ná að takast á við þetta risavaxna verkefni sem við erum að reyna að finna leiðir út úr hér í Glasgow.“ 

Framkvæmdin ekki bara markmiðið

Hún segir að á ráðstefnunni sé lögð mikil áhersla á framkvæmdina sjálfa, það hvernig eigi að ná samdrætti í losun og kolefnishlutleysi, ekki bara á markmiðin sjálf. 

Mörg verkefni hafa veitt orkumálastjóra innblástur úti í Glasgow. Til dæmis samstarf bílaframleiðandans Volvos og stærsta stálframleiðanda Svíþjóðar sem hyggjast framleiða fyrsta kolefnishlutlausa bílinn úr kolefnishlutlausu stáli. „Það verður ekki bara rafmagnsbíll heldur farartæki þar sem allt heila ferlið er grænt,“ segir hún. 

epa08369235 An employee works on a car in the Volvo Cars factory in Torslanda, Gothenburg, Sweden, 17 April 2020. Volvo Cars has started up the production at the factory in Torslanda again after a stand still since March 26 due to coronavirus, Covid-19 situation.  EPA-EFE/Adam Ihse SWEDEN OUT
 Mynd: EPA-EFE - TT Scanpix
Í verksmiðju Volvó í Gautaborg, Svíþjóð. Ekki bíllinn sem Halla vísar til enda með bensínloki.

Jarðhiti og mjólkurduft

Hér heima horfir hún til þess að hlúa vel að sprotafyrirtækjum sem oft þurfi langan tíma til að þroskast. Þá vill hún hugsa um orkumál í víðara samhengi en áður. Svo sem með því að nýta jarðvarma í auknum mæli. „Kanna hvernig við getum nýtt hann til að þurrka vörur til útflutnings, til að framleiða fleiri tegundir af vörum, hér er ég til dæmis að horfa á matvælaframleiðslu, við höfum auðvitað verið að gera hluta af þessu nú þegar í gegnum framleiðslu á grænmeti en þarna eru stór tækifæri.“

Hún nefnir að á Nýja Sjálandi hafi fyritæki framleitt mjólkurduft með hjálp jarðvarma, það sé svo flutt á markað í Kína. 

Pólitískur slagkraftur nauðsynlegur til að lausnirnar verði til

Parísarsamkomulagið hefur það að augnamiði að heimurinn verði orðinn kolefnishlutlaus fyrir árið 2050. Til þess að það verði að veruleika er gert ráð fyrir að beita ýmsum aðferðum, meðal annars tæknilausnum sem eru jafnvel ekki komnar fram eða á eftir að skala hressilega upp.

Þetta finnst sumum minnka trúverðugleika markmiðsins. Halla Hrund segir að vissulega hafi þetta verið gagnrýnt en tækninni hafi fleygt hratt fram.

„Ég held við þurfum að átta okkur á því að tæknin mun vinna með okkur ef við setjum fókus á að efla hana og nú þegar, ef við horfum bara á hluti eins og samgöngur á landi, þá eru góðu fréttirnar þær að tæknin er til, á Íslandi snýst þetta um að byggja hleðslustöðvar og skapa rétta hvata og þarna er ekki eftir neinu að bíða.“ 

epa09560914 A man takes a selfie as a screen displays an image of Britain's Queen Elizabeth and a quotation from her COP26 Evening Address at Piccadilly Circus in London, Britain, 03 November 2021. The COP26 climate conference is being held until November 12 in the Scottish city of Glasgow.  EPA-EFE/NEIL HALL
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Vegfarandi í Londonsmellir af sér sjálfu með loftslagsskilaboðum drottningar.

Það þarf náttúrulega fjármagn í að hlúa að sprotunum, þróa tæknina og skala upp lausnir eins og Carbfix. Halla segir umræðu um fjármögnun einmitt vera mjög fyrirferðamikla í Glasgow. Líklega verði árangurinn á þessu sviði misgóður eftir ríkjum enda skipti pólitísk forysta miklu. „Að hafa leiðtoga sem leggja áherslu á málaflokkinn, það hefur til dæmis orðið mikill viðsnúningur ef við horfum á Bandaríkin eftir að Biden-stjórnin tók við.“

Það skipti öllu að halda í pólitískan slagkraft og samstöðu. Verkefnið sé stórt og ekki eingöngu á borði stjórnvalda. Að því þurfi að koma stjórnmálamenn, fólk og fyrirtæki. „Ef það gengur eftir er ég bjartsýn og ég held líka að við höfum ekki annarra kosta völ, við verðum að vera bjartsýn og við verðum að halda áfram,“ segir Halla Hrund.