Mynd: EPA-EFE - EFE

Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.
Stöðvuðu flutningabíl fullan af flóttamönnum frá Haítí
03.11.2021 - 00:18
Dóms- og lögreglumál · Efnahagsmál · Erlent · Bandaríkin · flóttafólk · Gvatemala · Haítí · Hondúras · Mexíkó · Mið-Ameríka · Suður-Ameríka
Yfir fimmtíu flóttamenn frá Haítí fundust í flutningabíl í Gvatemala, þar af fjórtán börn. Talið er að ætlun fólksins hafi verið að komast til Bandaríkjanna gegnum Mexíkó. Tveir eru í haldi vegna málsins.
Mennirnir tveir eru frá Gvatemala og taldir vera ökumenn bílsins. Að því er fram kemur í tilkynningu lögregluyfirvalda í Gvatemala var flóttafólkinu veitt aðhlynning og síðan flutt aftur að landamærum Hondúras þaðan sem það kom.
Mikill fjöldi fólks frá Haítí hefur reynt að komast til Bandaríkjanna gegnum ríkin í Mið-Ameríku. Frumskógurinn Tapón del Darién á mörkum Kólumbíu og Panama reynist mörgum mikill farartálmi þar sem villidýr, vopnuð glæpagengi og viðsjárverðar ár ógna lífi þeirra sem þar fara um.
Yfir 100 þúsund flóttamenn hafa farið um skóginn á þessu ári eða næstum jafnmargir og samtals undanfarin sex ár. Talið er að yfir fimmtíu flóttamenn hafi farist á svæðinu í ár.