Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Sjö manna sendinefnd Evrópuþingsins komin til Taívan

Mynd með færslu
 Mynd: EPA
Sjö manna sendinefnd á vegum Evrópuþingsins kom til Taívan í morgun. Heimsóknin er hluti þeirrar stefnu Evrópusambandsins að styrkja tengslin við eyríkið þrátt fyrir viðvaranir Kínastjórnar.

Franski þingmaðurinn Raphael Glucksmann fer fyrir sendinefndinni sem fundar með Tsai Ing-wen, forseta Taívan og fleiri háttsettum embættismönnum.

Glucksmann hefur löngum verið gagnrýninn í garð Kínastjórnar sem lagði á hann viðskiptaþvinganir í mars síðastliðnum. Hann segir það ekki slá sig út af laginu, heldur berjist hann ótrauður fyrir lýðræði og mannréttindum. „Ég fer til Taívan,“ skrifaði hann á Twitter.

Í yfirlýsingu utanríkisráðuneytis Taívan segir að löggjafarmál, varnir lýðræðis og mannréttindi verði til umræðu þá þrjá daga sem sendinefndin dvelur í landinu. 

Mikil spenna hefur ríkt milli Kína og Taívan undanfarið en Kínverjar líta á eyna sem hérað innan landsins, hún sé langt í frá að geta talist sjálfstætt ríki.

Kínastjórn hefur ítrekað reynt að einangra Taívan á alþjóðavettvangi og mótmælt harðlega allri viðurkenningu, opinberri jafnt sem óopinberri á sjálfstæði landsins. 

Fulltrúar Kínastjórnar í Brussel varaði við því fyrir skemmstu að heimsókn Evrópuþingmanna til Taívan gæti skaðað samskipti Kína og Evrópusambandsins alvarlega.

Heimsókn franskra þingmanna til Taívan í síðasta mánuði reitti Kínastjórn mjög til reiði og eins ferð Josephs Wu, utanríkisráðherra Taívan til Slóvakíku og Tékklands nýverið.