Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Háttsettur herforingi Talibana féll í árás á sjúkrahús

03.11.2021 - 06:18
epa09559740 Mmebers of Taliban stand guard near the scene of bomb blasts, targeting military hospital in Kabul, Afghanistan, 02 November 2021. At least 25 people were killed and an unspecified number wounded on 02 November in a suicide attack with explosives on a military hospital in Kabul.  EPA-EFE/STRINGER
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Yfirmaður herafla Talibana í Kabúl, Hamdullah Mokhlis var einn þeirra sem féllu í árás vígamanna Khorasan-héraðs arms samtakanna sem kenna sig við Íslamskt ríki á Sardar Daud Khan sjúkrahúsið í borginni í gær.

Embættismenn Talibana greindu frá falli Mokhlis í morgun en enginn æðri í liði þeirra hefur fallið eftir að þeir náðu völdum í ágúst síðastliðnum. Hann var liðsmaður Haqquani samtakanna alræmdu og er nú sagður hafa dáið píslarvættisdauða í baráttu við óvininn.

Að minnsta kosti nítján féllu í árásinni á sjúkrahúsið sem hófst með sjálfsmorðsárás nærri anddyri þess.

Í kjölfarið létu þungvopnaðir menn til skarar skríða, að minnsta kosti fimm að því er fram kemur í yfirlýsingu hryðjuverkasamtakanna sjálfra.

Sjúklingar og læknar leituðu skjóls á efri hæðum sjúkrahúsbyggingarinnar en liðsmenn sérsveita Talibana lentu þyrlum á þaki hennar og réðust þaðan gegn árásarmönnunum.

Í yfirlýsingu Zabiullah Mujahid talsmanns Talibana segir að árásinni hafi verið hrundið á stundarfjórðungi sem þakka megi skjótum viðbrögðum öryggissveitanna.