Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

850 bíða eftir húsnæði á vegum borgarinnar

Mynd: Þór Ægisson / RÚV
Ekki er gert nóg til að sporna við fátækt í nýrri fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar, segir fulltrúi Sósíalista. Þá telja fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Flokks fólksins að skuldsetning borgarinnar sé of mikil. Reykjavíkurborg verður rekin með ríflega þriggja milljarða króna halla á næsta ári og verður það þriðja hallaárið í röð.

 

Í fjárhagsáætlun er gert ráð fyrir að skuldir borgarinnar aukist um 24 milljarða króna og verði tæpir 174 milljarðar í lok næsta árs. 

Sanna Magdalena Mörtudóttir, borgarfulltrúi Sósíalistaflokksins, vill að borgin sæki tekjur með skattlagningu á fjármagnstekjur.

„Til að tryggja að við getum byggt upp þessa góðu þjónustu sem fólk á rétt á. Við sjáum það t.d. að húsnæðisáætlun Reykjavíkurborgar sem birtist í fjárhagsáætlun, þetta náttúrulega gengur út frá því að það verði alltaf stór hópur fólks skilinn eftir. Núna eru t.d. 519 einstaklingar á bið eftir almennu félagslegu leiguhúsnæði og allir listar borgarinnar samanlagðir eftir öllu húsnæði, þetta eru um 850 einstaklingar. Þannig að þessi fjárhagsáætlun er ekki að gera ráð fyrir því að útrýma fátækt, að útrýma þessari húsnæðiskreppu sem fólk býr hér við. Þannig að þetta er eitthvað sem er óásættanlegt,“ segir Sanna.

„Ég er áhyggjufull og það eru fleiri. Öll gildi sem mæla afkomu eru neikvæð og fara lækkandi. Það er virkilegt áhyggjuefni. Þetta lýtur ekki vel út,“ segir Kolbrún Baldursdóttir, borgarfulltrúi Flokks fólksins. 

En er borgin nokkuð svo skuldsett miðað við önnur sveitarfélög?

„Þetta er náttúrulega stærsta sveitarfélagið og vissulega mæðir mikið á. En jú, það voru miklar skuldar fyrir og þær verða ennþá meiri núna. Þetta er einfaldega þannig að það er enginn afgangur fyrir daglegan rekstur eða til að borga af lánum,“ segir Kolbrún.

„Í fyrsta lagi er augljóst að skuldasöfnunin er alveg gegnum gangandi í góðæri og öllum árstíðum. Í öðru lagi er tap vegna þess að það hefur ekki verið hagrætt. Í þriðja lagi er gat því það vantar ýmislegt inn í áætlunina. Það er fyrirséð að það þurfi að fara í frekari framkvæmdir, bæði í holræsum og öðru. Svo vantar allt framlag til reksturs borgarlínu sem á byrja á tímabilinu. Það finnst mér einfaldlega skrítið,“ segir Eyþór Arnalds, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.

Gæti covid skýrt þennan hallarekstur?

„Nei, vegna þess að það er mikil tekjuaukning, 7,5% milli ára,“ segir Eyþór.