Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Segir stjórnarmenn hafa vitað af dómnum frá 1994

Mynd með færslu
 Mynd: Gísli Einarsson - RÚV
Knapi sem rekinn var úr landsliði Íslands í hestaíþróttum segir stjórnarmenn Landsambands hestamannafélaga og landsliðsins hafa vitað fullvel að hann hafi hlotið dóm fyrir kynferðisbrot árið 1994. Landsliðseinvaldur í hestaíþróttum vissi af málinu áður en knapinn var rekinn úr landsliðinu.

Jóhann Skúlason sem keppt hefur fyrir hönd Íslands í hestaíþróttum um árabil, var dæmdur árið 1994 fyrir að stunda kynlíf með stúlku undir lögaldri. Hún var 13 ára. Jóhann var dæmdur í 4 mánaða fangelsi, þar af 3 mánuði skilorðsbundið. Í dómnum sem fréttastofa hefur undir höndum, kemur fram að hann hafi ekki verið sakfelldur fyrir nauðgun, en fyrir að hafa stundað kynmök, án samfara, við stúlku undir lögaldri. Á sunnudaginn var hann rekinn úr landsliði hestamanna.

Í yfirlýsingu frá stjórn Landssambands hestamannafélaga segir að hún hafi nýlega fengið vitneskju um málið. Þá hafi Jóhann einnig hlotið dóm fyrir ofbeldisbrot í Danmörku árið 2016. Jóhann segir að ákveðinn hópur innan stjórnar LH og forsvarsmenn landsliðsins hafi vitað af dómnum í mörg ár. 27 ár séu liðin frá því að dómurinn féll og hann hafi keppt fyrir Íslands hönd allt frá árinu 1997. Hann undrast skrif Guðna Halldórssonar stjórnarformanns í Morgunblaðinu þar sem Guðni segir að sambandið hafi viljað bregðast hratt við í ljósi þess að dómurinn sé löngu fallinn.

Þá nái reglur FEIF og ÍSÍ um að þeir sem hljóti dóma fyrir kynferðisbrot skuli ekki valdir til starfa innan íþróttahreyfingarinnar ekki til knapa, heldur aðeins launþega og sjálfboðaliða. Í lögum ÍSÍ, sem stjórn LH vísar til segir að óheimilt sé að velja einstakling sem vitað er til að hafi hlotið refsidóma vegna kynferðisbrota til starfa innan íþróttahreyfingarinnar. Þetta gildi bæði um sjálfboðaliða og launþega.

Sigurbjörn Bárðarson, landsliðseinvaldur segir að hann hafi vitað óljóst af þessu máli þegar það kom upp, en tíðarandinn hafi verið allt annar en nú og málið lítið rætt. Jóhann hafi ekki verið þekkt stærð innan keppnisíþrótta í hestamennsku á þeim tíma sem dómurinn féll og að ekki hafi þótt ástæða til að velja hann ekki í landsliðið á sínum tíma. Það hafi verið rætt hvort að vísa ætti honum úr landsliðinu þegar seinni dómurinn féll árið 2016, en til þess hafi ekki komið. Það hafi komið flatt upp á hann þegar frá því var greint í Mannlífi í seinustu viku.  

Mynd með færslu
 Mynd: EPA

Jóhann sendi frá sér yfirlýsingu í dag vegna fréttaflutnings Mannlífs þar sem hann gerir athugasemdir við efni fréttanna. Þar sé rangt með farið að hann hafi verið dæmdur fyrir nauðgun árið 1994. Þá hafi hann ekki þurft að ganga með ökklaband eins og sagt var um dóminn í Dannmörku. Hann geti ekki breytt því liðna og hann iðrist gjörða sinna og biður brotaþola afsökunar.