Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Göngum út frá að Agnieszka sé starfandi formaður

02.11.2021 - 12:28
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Forseti ASÍ á von á að Sólveig Anna Jónsdóttir tilkynni um afsögn sem annar varaforseti ASÍ fljótlega. Hún býst við að málefni Eflingar verði rædd á fundi miðstjórnar ASÍ á morgun.

Efling er aðildarfélag ASÍ og hefur Sólveig Anna Jónsdóttir, fráfarandi formaður Eflingar, gegnt embætti annars varaforseta. Drífa Snædal, forseti ASÍ, segir að Sólveig Anna hafi ekki enn sagt af sér. Hún á þó von á að það verði fljótlega. „Það er bara þannig að þegar formaður segir af sér þá tekur varaformaður við þannig að við göngum út frá því að hún sé starfandi formaður. Hins vegar er svolítið óvissutímabil, þessi afsögn kom fólki á óvart.“

Drífa gerir ráð fyrir því að málefni Eflingar verði rædd á Miðstjórnarfundi ASÍ á morgun. Þar sem Sólveig Anna hefur ekki sagt af sér hefur hún verið boðuð á fundinn. Segi hún af sér eða boði forföll er Agnieszka Ewa Ziolkowska varamaður hennar og situr þá fundinn.

Drífa vill ekki svara því hversu lengi ASÍ hefur verið kunnugt um væringar á skrifstofu Eflingar en segir að sambandið ætli ekki að hlutast til um þau mál nema þess verði óskað. „ASÍ fer ekki inn í starfsemi aðildarfélaga nema að það sé óskað eftir því eða brýnt tilefni er til og félögin eru óstarfhæf. Þannig er ekki í þessu tilviki þannig að okkar hlutverk er að þjónusta félagið. Það gerum við bara í samtali og samráði við félaga.“

Fréttastofa hefur ítrekað reynt að ná tali af Sólveigu Önnu og Viðari Þorsteinssyni í gær og í dag, án árangurs. Hvorki símtölum né skriflegum skilaboðum hefur verið svarað. Þau hafa hins vegar birt reglulegar færslur á Facebook, bæði um málefni Eflingar og önnur mál.