Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Kröfðu stjórnendur um umbætur

01.11.2021 - 19:43
Mynd: RÚV - Bragi Valgeirsson / RÚV
Starfsfólk Eflingar lagði að forystu félagsins að ráða bót á viðvarandi samskiptavanda á skrifstofu þess. Formaðurinn Sólveig Anna Jónsdóttir leit á afstöðu starfsfólksins sem vantraustsyfirlýsingu og sagði af sér formennsku. Hún segir að starfsfólk hafi hrakið sig úr starfi.

Starfsfólk Eflingar samþykkti í júní ályktun þar sem fundið var að stjórnunarháttum forystu Eflingar og gerð krafa um úrbætur. Ályktunin fór afar leynt og hefur hún ekki verið borin á borð stjórnar Eflingar. Guðmundur Baldursson, stjórnarmaður í Eflingu, upplýsti í kvöldfréttum RÚV á föstudaginn að hann hefði ítrekað óskað eftir að fá ályktunina í hendur en ekki orðið ágengt.

Við vinnslu fréttarinnar sendi fréttastofa fyrirspurn á Sólveigu Önnu Jónsdóttur, formann Eflingar, um efni ályktunarinnar. Engin svör bárust frá Sólveigu, en þess í stað fékk fréttastofa tölvupóst frá trúnaðarmanni þar sem sagði að málið ætti ekki heima í fjölmiðlum.

Sá póstur var sendur að loknum starfsmannafundi á föstudagsmorgun. Sólveig Anna hefur upplýst að hún hafi ávarpað fundinn í upphafi og sagt að tveir kostir væru í stöðunni. Annað hvort myndi starfsfólk bera til baka lýsingar úr ályktun trúnaðarmanna eða hún segði af sér formennsku.

Á fundinum samþykkti starfsfólkið tvær yfirlýsingar. Annars vegar þá sem send var til RÚV, og minnst var á áður, og hins vegar ályktun til stjórnenda. Fréttastofa hefur þá yfirlýsingu undir höndum en þar segir meðal annars:

„Að mati starfsmanna er ósanngjarnt að stjórnendur velti ábyrgð á þessum innanhúsmálum á starfsfólkið. Við lýsum því yfir að ástæða hafi verið fyrir upphaflegu ályktuninni og óskum enn eftir að stjórnendur bregðist við henni. Við gerum kröfur á stjórnendur að þau viðurkenni, taki ábyrgð á og leysi vandann.“

Enn fremur er farið fram á að haldnir verði starfsmannafundir bæði með og án viðveru stjórnenda. Stór hluti starfsmanna hafi fundið eða finni til óöryggis og vandamálin verði ekki leyst án opinbers samtals.

Á stjórnarfundi í gær tilkynnti svo Sólveig Anna stjórn Eflingar að hún hygðist segja af sér sem formaður. Hún greindi frá ákvörðun sinni á Facebook í gærkvöld með þeim orðum að starfsfólk Eflingar hefði hrakið sig úr starfi þar sem hún liti svo á að yfirlýsingarnar sem starfsfólk sendi á föstudaginn fælu í sér vantraustsyfirlýsingu. Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri, tilkynnti einnig um afsögn sína í dag.

Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir hefur ekki náðst í Sólveigu Önnu og Viðar í dag. Þá vildi trúnaðarmaður starfsmanna Eflingar ekki tjá sig um málið.