Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Tíu í fangageymslu eftir nóttina

Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson
Tíu manns gistu fangageymslur lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í nótt. 117 mál voru skráð í bækur lögreglufrá klukkan 17 í gær til fimm í morgun, mörg þeirra vegna hávaða í heimahúsum, drykkjuláta, ofurölvunar og slagsmála.

Einn maður var handtekinn á ellefta tímanum í gærkvöld vegna líkamsárásar á dyravörð í miðbænum. Þegar tilkynnt var um árásina fór lögregla á staðinn en þegar þangað kom var maðurinn í tökum, eins og það er orðað í dagbók lögreglu. Annar maður var handtekinn í Austurbænum laust fyrir miðnætti. Sá var í annarlegu ástandi og sagður hafa hótað fólki með hamri.

Ofsaakstur og innbrot

Nokkuð var um hraðakstur og tveir nálguðust að stunda ofsakstur. Annar þeirra ók eftir Kringlumýrarbrautinni á 119 kílómetra hraða þar sem hámarkshraði er 80 kílómetrar á klukkustund. Hinn var enn ósvífnari og ók á 126 kílómetra hraða þar sem hámarkshraði er 60.

Skömmu fyrir hálf fjögur í nótt ók svo maður á steinvegg í miðborginni. Sá hafði aldrei tekið bílpróf og er grunaður um að hafa verið ölvaður að auki.

Loks má nefna að innbrot var tilkynnt í Kópavogi. Þar var spenntur upp gluggi og farið inn í fyrirtæki, en ekki er vitað hverju var stolið. 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV