Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Færri smit en búist var við á Selfossi

31.10.2021 - 12:29
Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
58 greindust innanlands í gær og var rúmlega helmingur í sóttkví, eða þrjátíu og tveir. Díana Óskarsdóttir forstjóri Heilbrigðisstofnunar Suðurlands segir að færri hafi greinst þar í stórri skimun en búist var við.

„Það komu um 600 manns í sýnatökur, það voru langar raðir þarna af því  við með þetta í Krónukjallaranum og fólk keyrir inn í bílunum sínum það myndaðist þarna ansi góð röð á Selfossi, held það hafi verið 800 metra löng röð á tímabili. Þetta gekk vel og niðurstöðurnar sýna að við erum að sleppa ansi vel í gegnum þetta. Held það séu innan við tíu smit sem eru að bætast við,“ segir Díana.

Frá miðvikudegi hafa um fimmtán greinst á Selfossi, smitin tengjast skólunum, bæði grunnskólunum og fjölbrautaskóla Suðurlands, sem var lokað vegna smitanna í síðust viku og á morgun og hinn verður þar fjarkennsla. 

„Ég átti von á því að sjá hærri tölur hjá okkur.“

Heldurðu að þið séuð búin að ná utan um þetta? „Ég vona það. smitrakning er í gangi og við vonum það besta.“

Tólf á spítala

Smitin sem greindust í gær voru öllu færri en í fyrradag þegar 96 greindust á landinu öllu, en það fara alltaf færri í sýnatökur um helgar. Tólf liggja á Landspítalanum með covid, tveir á gjörgæslu.

Verkefnastjóri farsóttarnefndar Landspítala sagði í kvöldfréttum í gær að staðan þar væri svipuð og í sumar þegar gripið var til hertra samfélagsaðgerða til að takmarka smit og að ef smitum heldur áfram að fjölga yrði ekki langt í að spítalinn þyrfti að hækka viðbúnaðarstig sitt í hættustig.

 

holmfridurdf's picture
Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir
Fréttastofa RÚV