Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Segir uppbyggingu íbúða anna eftirspurn

Pawel Bartoszek forseti borgarstjórnar segir að síðustu ár í höfuðborginni hafi verið metár uppbyggingar og ekki þurfi að hafa áhyggjur af húsnæðisskorti. Hann segir uppbyggingin muni duga til að brúa bilið milli framboðs og eftirspurnar. Samtök iðnaðarins hafa þó bent á að uppbygging hafi oft verið meiri í borginni og aðrir borgarfulltrúar segja íbúðaskort greinilegan.

Pawel var gestur í Vikulokunum á Rás 1 í dag ásamt borgarfulltrúunum Kolbrúnu Baldursdóttur og Katrínu Atladóttur.

„Það hefur komið fram gagnrýni um það að lóðaframboð hafi ekki verið nægt. Það er rétt, lóðir í Reykjavík eru vinsælar og seljast gjarnan hratt þegar þær eru í boði. Við höfum hins vegar kynnt áætlun til tíu ára þar sem gert er ráð fyrir yfir þúsund lóðum á ári næstu tíu ár. Þannig ég held að hérna staðan sé bara góð“ segir Pawel.

Borgaryfirvöld kynntu lóðaúthlutun næstu áratuga en stefnt er að uppbyggingu um eitt þúsund íbúða á hverju ári. Skiptar skoðanir hafa verið á stöðu skipulagsmála í borginni síðustu misseri, þá sérstaklega hvað varðar íbúðaskort og að framboð anni ekki eftirspurn. Greinilegt er þó er að skýringum um skort á íbúðarhúsnæði ber ekki saman. Borgarstjóri sagt skýringuna liggja hjá bönkum sem ekki vildu lána fyrir byggingaframkvæmdum. Hann hafnar því alfarið að lóðaskortur sé í borginni.

Greinilegt að einhversstaðar er skekkja

Katrín Atladóttir borgarfulltrúi segir þó greinilegt að einhver skekkja sé á fasteignamarkaði, þar sem kaupendur lýsi því að hart sé barist um íbúðir.

„Ég held við hljótum að sjá að það er eitthvað skakkt í þessu. Eftirspurnin er mjög mikil og ég veit ekki hvað ég hef heyrt margar sögur af kaupendum íbúða sem bjóði jafnvel fimm milljónir yfir uppsett verð, en fær samt ekki íbúðina afþví einhver býður enn hærra“ segir Katrín.

Kolbrún Baldursdóttir tekur í sama streng og segir að hinir efnaminni sitji á hakanum, á meðan efnameiri kaupendur komist að. Hún segir alveg ljóst að skortur sé á íbúðum í borginni og ýmsar tafir orðið á uppbyggingu.