Eftir töp í þremur fyrstu leikjum tímabilsins hefur Arsenal ekki tapað leik í deildinni síðan 28. ágúst þegar liðið lá fyrir Manchester City. Strax á 5. mínútu kom Gabriel gestunum yfir með skallamarki eftir hornspyrnu frá Bukayo Saka. Emile Smith Rowe tvöfaldaði svo forystuna á 18. mínútu.
Leicester-menn fengu fjölmörg tækifæri til að skora og voru mjög nálægt því rétt fyrir lok fyrri hálfleiks þegar Aaron Ramsdale varði aukaspyrnu James Maddison glæsilega og varnarmenn Arsenal björguðu svo boltanum á marklínu. Ramsdale kom svo nokkrum sinnum í veg fyrir að Leicester skoruðu og fleiri mörk litu ekki dagsins ljós. Arsenal fer með sigrinum upp í 5. sæti deildarinnar með 17 stig en Leicester er í því tíunda með 14 stig.