Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Smit á sjúkrahúsi, í skóla og handboltadeild á Selfossi

Mynd með færslu
 Mynd: Bjarni Rúnars - RÚV
Kórónuveirusmit hafa stungið sér niður víða á Selfossi. Tvö smit greindust hjá starfsfólki Fjölbrautaskóla Suðurlands í gær og alls eru því ellefu starfsmenn með veiruna og þrír nemendur hafa smitast. Þá eru komin upp smit í handknattleiksdeild Selfoss og eru þau talin tengjast fjölbrautaskólanum. Í gærkvöld var svo greint frá því að smit hefði greinst á Heilbrigðisstofnun Suðurlands kvöldinu áður.

Baldvina Ýr Hafsteinsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar á Heilbrigðisstofnun Suðurlands, segir að engir aðrir á sjúkrahúsinu hafi smitast. Hún þakkar það árvekni starfsfólks og skjótum viðbrögðum, að ekki hafi fleiri smitast. Sjúklingurinn smitaðist af ættingja sem heimsótti hann. Eftir heimsóknina kom í ljós að ættinginn var smitaður. Starfsfólkið sá í heilbrigðistölvukerfi að sjúklingurinn hafði verið útsettur fyrir smiti og hafði sett hann í einangrun áður en smitrakningarteymið náði að hafa samband. 

Eingöngu hefur verið boðið upp á fjarkennslu í Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi frá því smit greindist hjá starfsmönnum á þriðjudag. Olga Lísa Garðarsdóttir skólastjóri segir viðbúið að á mánudag verði einnig fjarkennsla. 

Heimsóknarbann er á lyflækninga- og göngudeild Heilbrigðisstofnunar Suðurlands á Selfossi eftir að smitið greindist þar.

Innanlandssmitum hefur fjölgað síðustu daga og voru greind 96 smit í gær.