Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Mikilvægt að trúfélög sameinist um framtíð jarðarinnar

Sólskin og sólstafir í skýjum.
 Mynd: Adrian van Leen - RGBStock
Samráðsvettvangur hinna ýmsu trúfélaga boðar í dag til ráðstefnunnar Öll á sama báti í Þjóðminjasafninu, þar verða trúin og loftslagið til umræðu. Forsvarsmaður ráðstefnunnar, Arnfríður Guðmundsdóttir, prófessor í guð- og trúarbragðafræði við Háskóla Íslands, segir ekki hægt að leggja vandann algerlega í hendur vísindamanna.

„Við komum saman. Það að er margt sem aðskilur okkur, margt sem við ættum erfitt með að vera sammála um en þetta, framtíðin, er eitthvað sem við getum verið sammála um,“ sagði Arnfríður á Morgunvaktinni á Rás 1. 

„Það er ekki hægt að setja þetta bara í hendur vísindafólksins, vísindasamfélagið hefur líka kallað eftir því að aðrir leggi hönd á plóginn og sérstaklega trúarsamfélög vegna þess að þau eru jú að túlka tilgang og merkingu lífsins. Þau sameinast um einhver gildi og hugsjónir og ef við getum ekki sameinast um framtíð jarðarinnar, þá held ég að það sé eitthvað ekki alveg í lagi.“ 

Páfinn hvetur til aðgerða

epa09542903 Pope Francis gestures as he leads the Angelus prayer from the window of his office overlooking Saint Peter's Square, in Vatican City, 24 October 2021.  EPA-EFE/GIUSEPPE LAMI
 Mynd: EPA-EFE - ANSA
Frans Páfi.

Á heimsvísu eru trúarleiðtogar í auknum mæli farnir að láta að sér kveða í loftslagsumræðunni. Í dag hvatti Frans Páfi þjóðarleiðtoga til þess að láta til sín taka á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Glasgow, koma fram með áhrifaríkar lausnir gagnvart því neyðarástandi sem hann segir ríkja í loftslagsmálum og veita þannig komandi kynslóðum raunverulega von. Í ávarpi sem hann flutti í breska ríkisútvarpinu ræddi hann erfiðleika sem herjað hafa á heiminn undanfarið, COVID-faraldurinn, loftslagsbreytingar og bágt efnahagsástand og hvatti ríki til að nýta þessa erfiðleika sem tækifæri til þess að ráðast í róttækar breytingar, þessu tækifæri megi ekki sóa. 

Páfinn sagði hægt að bregðast við strembnum tímum með einangrunarhyggju, verndarhyggju og rányrkju en að það væri ekki óhjákvæmilegt að fara þá leið. Þá lagði hann áherslu á ábyrgð og áhrif hvers og eins jarðarbúa, allir gætu lagt sitt af mörkum í því að breyta sameiginlegum viðbrögðum okkar við loftslagsógn og hnignun lífríkisins.