Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Segir að sagan síðan í sumar sé að endurtaka sig

Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Sóttvarnalæknir hyggst ekki skila heilbrigðisráðherra minnisblaði um hertar sóttvarnaaðgerðir í dag. Hann segir sömu þróun í kórónuveirufaraldrinum nú og í sumar þegar fjórða bylgjan brast á. 96 kórónuveirusmit greindust innanlands í gær og Ísland er orðið rautt á korti Sóttvarnastofnunar Evrópu

Smitum heldur áfram að fjölga og um helmingur þeirra 96 sem greindust í gær var utan sóttkvíar. Nýgengi innanlandssmita er nú 241,3 og Ísland fór úr gulum lit í rauðan á korti Sóttvarnastofnunar Evrópu sem uppfært var í morgun. Landið var síðast rautt um miðjan september, en kortið byggir á smittíðni síðustu tveggja vikna. Um 900 eru á COVID-göngudeild Landspítala og þrír eru á gjörgæslu með COVID-19. Þeir eru allir bólusettir.

„Mér sýnist þetta bara vera mjög svipað og það var síðastliðið sumar,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.

Erum við þá að tala um þegar fjórða bylgjan hófst? „Já, þegar þetta byrjaði um miðjan júlí og náði síðan hámarki í ágúst. Það var í kjölfar afléttinga og við höfum séð það margoft að um leið og afléttingar eru viðhafðar þá fer bylgjan upp aftur. Ég hafði lagt það til í minni langtímaspá að við myndum hafa einhverjar takmarkamir alltaf við lýði til að halda þessu í því horfi sem við viljum hafa það með einhverjum takmörkunum og það er greinilega mjög erfitt að framfylgja því eða gera það.“

Ertu að vinna að tilögum um hertar aðgerðir? „Auðvitað er ég að hugsa um hvort það sé við hæfi að gera það og ég er í stöðugu samtali við ýmsa aðila um ýmislegt sem við getum gert og hverjar horfurnar eru.“

Muntu skila heilbrigðisráðherra minnisblaði í dag? „Nei ekki í dag.“

Nú er ríkisstjórnarfundur á morgun - mun heilbrigðisráðherra ekki fara inn á þann fund með neinar tillögur? „Ég er ekki með neinar  tillögur í farvatninu núna og ég held að það sé mjög mikilvægt núna að ná góðri samstöðu um það sem gera þarf og það þarf greinilega að gera eitthvað.“

Hvað ætlarðu að taka þér langan tíma í að skoða það að senda nýjar tilögur til heilbrigðisráðherra? „Eins og þarf.“

Segir samstöðu nauðsynlega

Nú fjölgar smitum dag frá degi og kúrfan virðist bara stefna eina leið og það er upp - er hægt að bíða lengi? „Nei, ég hef sagt það áður að því fyrr sem gripið er  til aðgerða, því betra. En við þurfum að ná samstöðu um það, það hefur engan tilgang að vera með tillögur um harðar aðgerðir ef það er engin samstaða um það.“

Finnst þér  líklegt að svo verði ef þú leggur til hertar aðgerðir? „Ég veit það ekki, það er það sem samtalið sem ég á við mjög marga aðila snýst um.“

Hvaða aðila? „Mjög marga.“ Stjórnvöld? „Já, mjög marga“

Þórólfur biðlar til almennings um að gæta að persónubundnum sóttvörnum: „Forðast fjölmenni, sérstaklega þar sem fólk þekkist ekki, nota grímur í aðstæðum þar sem fólk getur ekki viðhaft eins metra reglu og hreinlega fara mjög varlega. Það vita allir hvað það er.“