Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Íslensk ungmenni þamba orkudrykki sem aldrei fyrr

28.10.2021 - 15:43
Mynd með færslu
 Mynd:
Neysla íslenskra ungmenna á orkudrykkjum er með því mesta sem þekkist í Evrópu. Þetta er meðal niðurstaðna áhættumatsnefndar, sem rannsakaði neyslu ungmenna í framhaldsskólum á orkudrykkjum sem innihalda koffín.

Áhættunefnd skoðaði málið að beiðni MAST

Í ljósi aukins framboðs og neyslu íslenskra ungmenna á orkudrykkjum óskaði Matvælastofnun eftir því að áhættumatsnefnd skoðaði málið. Ásta Heiðrún Pétursdóttir, sviðsstjóri hjá Matís, er formaður nefndarinnar. „Helstu niðurstöður þessarar rannsóknar er að framhaldsskólanemar eru að neyta umtalsverðs magns af koffíni og þar vega orkudrykkir mjög mikið,“ segir Ásta.

Meira en helmingur framhaldsskólanema neytir orkudrykkja einu sinni í viku eða oftar

Í skýlrslunni sem birt var á vef MAST segir meðal annars að að neysla íslenskra ungmenna á orkudrykkjum, sem innihalda koffín sé með því mesta sem þekkist í Evrópu og er vægi orkudrykkja í heildarkoffínneyslu íslenskra ungmenna mun meira en sést í sambærilegum erlendum rannsóknum. „Meira en helmingur framhaldsskólanema neytir orkudrykkja einu sinni í viku eða oftar. Tíundi hver framhaldsskólanemi undir átján ára og einn af hverjum fimm yfir átján ára aldri, neytir orkudrykkja daglega,“ segir í skýrslunni. 

Eðlilegt að draga úr aðgengi

Í ljós kom að neysla íslenskra ungmenna er töluvert meiri en sést hefur í erlendum rannsóknum. Því leggur áhættumatsnefndin til að dregið verði úr aðgengi ungmenna að orkudrykkjum. „Ef markmiðið er að lágmarka koffínneyslu þá væri eðlilegt að beina sjónum að orkudrykkjaneyslu og þá kannski aðgengi orkudrykkja á þannig stöðum eins og í framhaldsskólum og í tengslum við íþróttaviðburði og beina sjónum að slíkum viðburðum,“ segir Ásta.

Eftirtaldir aðilar skipuðu áhættumatsnefndina:

  • Charlotta Oddsdóttir, Tilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum
  • Helga Gunnlaugsdóttir, Orkídea & gestaprófessor við Matvæla- og næringarfræðideild HÍ
  • Jóhanna Eyrún Torfadóttir, Embætti Landlæknis
  • Jóhannes Sveinbjörnsson, Landbúnaðarháskóla Íslands
  • Rafn Benediktsson, Heilbrigðisvísindasvið HÍ
  • Þórhallur Ingi Halldórsson, Matvæla- og næringarfræðideild HÍ, sá um tölfræðiútreikninga