Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Ísland spilar á tveimur minnstu völlunum

Mynd með færslu
 Mynd: Manchester City

Ísland spilar á tveimur minnstu völlunum

28.10.2021 - 19:45
Í dag var dregið í riðlakeppni Evrópumóts kvenna í fótbolta næsta sumar. Ísland er í D-riðli með Frakklandi, Ítalíu og Belgíu en leikur á tveimur af minnstu völlunum sem leikið er á á mótinu.

Ísland leikur fyrri tvo leiki sína, gegn Belgíu og Ítalíu, á Manchester Academy Stadium. Það er heimavöllur kvennaliðs Manchester City og varaliðs karlaliðsins. Sá völlur er býsna lítill og tekur 7.000 áhorfendur. Á stórmótum fara hins vegar ansi mörg sæti undir aðstöðu fjölmiðla og því má reikna með rúmlega 6.000 áhorfendum.

Lokaleikur íslenska liðsins er á New York Stadium í Rotherham. Sá völlur tekur 12.021 áhorfanda samkvæmt Wikipedia. Aftur mun talsverður hluti sæta fara undir aðstöðu fjölmiðla. 

Akademíuvöllurinn í Manchester er sá minnsti sem leikir er á á mótinu og Rotheramvöllurinn sá þriðji minnsti. Á milli þeirra tveggja er Leigh Sports Village völlurinn sem tekur 12.000.

Stærð vallanna tengist liðunum í riðlinum ekkert. Búið var að ákveða að leikir D-riðils færu fram á þessum tveimur völlum, burtséð frá því hvaða lið drægjust í riðilinn. 

Í öðrum riðlum eru stærri vellir í boði. A-riðill inniheldur heimalið Englands og eðlilega verður leikið á stórum völlum. Fyrsti leikur þess riðils er á Old Trafford í Manchester sem tekur tæplega 75.000 áhorfendur. Aðrir leikir riðilsins eru á St. Mary´s vellinum í Southampton og Falmer Stadium í Brighton. Báðir taka um 32.000 áhorfendur.

Í B-riðli er leikið á Stadium MK í Milton Keynes og Brentford Community Stadium. Stadium MK tekur 30.000 og í Brentford er pláss fyrir rúmlega 17.000.

Loks leikur C-riðill á hinum litla Leigh Sports Village með 12.000 áhorfendur og svo á Bramall Lane í Sheffield, sem rúmar rúmlega 32.000 áhorfendur.

Af framantöldu má því sjá að D-riðillinn virðist hafa dregið aðeins styttra strá en aðrir riðlar þegar kemur að aðgengi stuðningsmanna.

Tengdar fréttir

Fótbolti

Þorsteinn: Eigum ágætis möguleika

Fótbolti

Ísland í riðli með Frakklandi, Ítalíu og Belgíu