Háspenna þegar Keflavík lagði Breiðablik

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

Háspenna þegar Keflavík lagði Breiðablik

28.10.2021 - 21:06
Keflavík er eina liðið með fullt hús stiga í Subway-deild karla í körfubolta eftir sigur á Breiðabliki í Smáranum í kvöld. Keflavík vann eins stigs sigur í háspennuleik, 107-106.

Breiðablik-Keflavík

Eins og tölurnar gefa til kynna var mikið skorað í Smáranum í kvöld. Liðin skiptust á að vera yfir í fyrri hálfleik en þegar gengið var til búningsklefa var staðan 56-51, Keflavík í vil.

Svipað var uppi á teningnum í síðari hálfleik og liðin skiptust á að hafa forystuna. Keflvíkinga tóku svo góða rispu í fjórða leikhluta og náðu 9 stiga forskoti. Því var svarað með 10 stigum í röð frá Breiðabliki sem komst yfir, 106-105. David Okoke skoraði hins vegar tvö síðustu stig leiksins fyrir Keflavík af vítalínunni og tryggði sigurinn, 107-106.

Keflavík hefur unnið alla fjóra leiki sína í deildinni í vetur og er með fullt hús stiga, eitt liða deildarinnar. Breiðablik er með 2 stig eftir fjóra leiki.

Tindastóll-Grindavík

Tindastóll hafði unnið fyrstu þrjá leiki sína í deildinni fyrir heimsókn Grindvíkinga í kvöld. Eftir jafnan fyrri hálfleik náði Grindavík góðu forskoti í þriðja leikhluta og þrátt fyrir gott áhlaup náðu Stólarnir ekki að vinna það upp í fjórða leikhlutanum. Grindavík vann með 86 stigum gegn 77. Grindavík er í efsta sæti með 8 stig eftir fimm leiki en Tindastóll er með 6 stig eftir fjóra leiki eins og Njarðvík og Þór Þorlákshöfn. 

Þór Þorlákshöfn-ÍR

Íslandsmeistarar Þórs tóku á móti ÍR í Þorlákshöfn. Þór tók forystuna í fyrsta leikhluta og gaf hana aldrei af hendi. Þór vann með 105 stigum gegn 93. Þórsarar eru með 6 stig en ÍR er án stiga í neðsta sæti deildarinnar.

Valur-Vestri

Í lokaleik kvöldsins vann Valur svo Vestra með 74 stigum gegn 67. Valur náði góðu forskoti í fyrsta leikhluta en Vestri svaraði í öðrum og í hálfleik stóð 40-37, Val í vil. Tveimur stigum munaði fyrir lokafjórðunginn en þar voru Valsmenn sterkari og lönduðu sigri. Valur er með 4 stig en Vestri með 2.