Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Faraldurinn í veldisvexti og fimmtán á spítala

28.10.2021 - 22:57
Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Meðalaldur þeirra sem greindust með Covid hér á landi í gær er 30 ár, og voru þau sem smituðust allt frá nokkurra mánaða gömul í að vera á tíræðisaldri. Þetta kemur fram í pisli Þórólfs Guðnasonar, sóttvarnalæknis, á vefnum covid.is. Þar segir einnig að faraldurinn sé í veldisvexti.

Flestir þeirra sem greindust smitaðir í gær búa á höfuðborgarsvæðinu en margir þeirra búa í öðrum landshlutum. Þrír voru lagðir inn á Landspítala í gær með veiruna og eru 15 inniliggjandi sem stendur. Þar af eru þrír á gjörgæsludeild og einn í öndunarvél. 

„Þróun faraldursins hér er því enn versnandi og faraldurinn í veldisvexti. Líklegt er að þessi þróun, hvað varðar heildarfjölda smita, haldi áfram sem mun leiða til versnandi ástands á Landsspítalanum,“ segir sóttvarnalæknir í pistlinum. 

Þó að litlar opinberar takmarkanir séu nú í gildi þá geti fólk allt sem einstaklingar lagt sitt af mörkum til að hindra útbreiðslu veirunnar, segir Þórólfur. „Við getum forðast hópamyndanir með ókunnugum, viðhaft eins metra nándarreglu, notað andlitsgrímur í aðstæðum þar sem nánd við ókunnuga er undir einum metra og gætt að góðri sótthreinsun handa.“ Finni fólk fyrir einkennum sjúkdómsins á það að halda sig til hlés, forðast margmenni og umgengni við viðkvæma einstaklinga og fara í sýnatöku, ráðleggur sóttvarnalæknir. „Hollt er hins vegar að hafa í huga þá reynslu okkar að samfélagslegum smitum fækkar ekki fyrr en gripið er til takmarkandi aðgerða í samfélaginu.“