Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Óskað eftir fólki í bakvarðasveit heilbrigðisþjónustu

27.10.2021 - 14:12
Mynd með færslu
Mikið hefur mætt á heilbrigðisstarfsfólki alstaðar í heiminum í farsóttinni og ekki að sjá að álagið minnki til muna í bráð Mynd: Ásvaldur Kristjánsson - Landspítalinn
Heilbrigðisyfirvöld hafa ákveðið að óska á nýjan leik eftir sjálfboðaliðum í bakvarðarsveit heilbrigðisþjónustunnar vegna fjölgunar COVID-19 smita seinustu daga.

Smit kom upp á hjarta- og lungnadeild Landspítalans, 12G, á dögunum og er deildin nú lokuð. Sjúklingar og starfsmenn eru af þeim sökum í sóttkví og einangrun. Þá er búið að gera smitsjúkdómadeildina A7 að farsóttareiningu sem mun nú alfarið sinna COVID-19 sjúklingum. 

Biðlað er til heilbrigðisstarfsfólks, sem tök hefur á að veita tímabundið liðsinni ef á reynir, að skrá sig í bakvarðarsveitina. Hún var sett á fót í upphafi faraldursins þegar ljóst var að mikilvægar heilbrigðisstofnanir gætu lent í mönnunarvanda vegna veikinda og sóttkvíar. 

„Þetta fyrirkomulag hefur reynst afar vel og skipt sköpum þegar heilbrigðisstofnanir hafa þurft að manna stöður með litlum sem engum fyrirvara. Í ljósi þess að smitum af völdum covid hefur farið fjölgandi undanfarið og ljóst að mikilvæg heilbrigðisþjónusta getur raskast ef smit koma upp, telja heilbrigðisyfirvöld nauðsynlegt að óska eftir heilbrigðisstarfsfólki á skrá í bakvarðarsveit, sem er reiðubúið að hlaupa í skarðið ef á reynir,“ segir í tilkynningu frá Heilbrigðisráðuneytinu.