Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Hlúa að slasaðri branduglu í bílskúr á Akureyri

27.10.2021 - 22:09
Innlent · Akureyri · Fuglar · Norðurland · Uglur
Tveir fuglaáhugamenn á Akureyri hafa undanfarna daga hlúð að veikri branduglu í bílskúr í bænum. Uglan hefur lítið vilja borða og en vonir standa til þess að hún braggist, fái hún lifandi mús.

Varð fyrir bíl í Hörgárdal

„Þetta er afleiðing af umferðarslysi, félagi minn var að keyra í Hörgárdalnum og hún blindaðist sennilega af ljósum og flaug á bílinn hjá honum og hann bjargaði henni bara í hús og hún virtist ekki geta flogið og við finnum ekkert brot í henni en við erum að reyna að lækna hana,“ segir Jón Magnússon, fuglaáhugamaður. 

Annast ugluna dag og nótt

Jón sem hefur í tugi ára rannsakað fugla segir að uglan, sem ber nafnið Þröstur, sé kvenfugl sem komið hafi úr eggi núna í vor. Hún virðist ekki vængbrotin en Jón grunar að hún sé blind. Því sé hún ákaflega gæf. En það er ekkert grín að annast veika uglu og hafa þeir félagar skipt á að annast hana síðustu daga. „Við göngum vaktir hérna og gjarnan um hálf 4 á nóttunni er farið og reynt að gefa henni vítamínbætt vatn.“

Þetta er bara eins og gjörgæsludeild á sjúkrahúsi?

 „Já, já og við erum alltaf með annað eyrað á henni.“

Auglýsa eftir nýrri mús

Þrátt fyrir ýmis gylliboð hefur Þröstur lítið vilja borða frá slysinu. Þeir félagar gefi henni vatn með vítamínum. „Okkur vantar glænýja mús. Ég prófaði kartöflumús um daginn. Hún vildi það ekki. En svo fengum við mýs í gær. Við fengum bara dauðar mýs og þær voru komnar fram yfir söludag sko, það var vond lykt af þeim og hún bara snéri uppá sig.“ 

Ég verð nú að spyrja þig eins og Magnús Hlynur, kollegi minn á suðurlandi. Er gaman að eiga uglu?

„Ég á ekki uglu við erum vinir. Það er gaman að vera vinur uglu.“

Mynd með færslu
 Mynd: Sölvi Andrason - RÚV
Þröstur