Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Hertar aðgerðir eini möguleikinn haldi fjölgun áfram

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir að haldi smitum áfram að fjölga sé enginn annar möguleiki í stöðunni en að leggja til hertar aðgerðir. Hann telur að hertar aðgerðir myndu ekki falla í góðan jarðveg hjá almenningi. 84 kórónuveirusmit greindust innanlands í gær - mesti fjöldi smita sem greinst hefur í rúma tvo mánuði.  

Sóttvarnalæknir segir að um sé að ræða lítil hópsmit sem oft megi rekja til þess að fólk með einkenni mæti í vinnu eða á mannfagnaði. „Ef við skoðum þetta yfir lengri tíma, núna síðustu  vikur, þá er kúrfan greinilega upp á við,“ segir Þórólfur.

 Er 5. bylgjan hafin? „Ég veit ekki hvað á að kalla þetta, ég held að sú fjórða hafi aldrei klárast. En þetta er svona upp á við núna, þetta er ekki alveg nógu gott eins og staðan er núna, finnst mér.“

Áformað er að aflétta öllum innanlandstakmörkunum 18. nóvember, eftir þrjár vikur. Þórólfur segist ekki vera farinn að huga að því að leggja til endurskoðun á þeirri dagsetningu.

„Mér finnst aðalspurningin vera, frekar en að fresta þeirri dagsetningu, mun staðan versna það mikið að ég muni þurfa að koma með tillögur um hertari aðgerðir. Það finnst mér vera það sem er ofar í huga núna.“

Haldi þessi þróun áfram - muntu vinna slíkt minnisblað og leggja til við heilbrigðisráðherra? „Þannig hef ég unnið allan tímann í þessum faraldri, þegar staðan er farin að versna og útlit fyrir að hún geti orðið alvarleg; þá höfum við alltaf verið að tala um heilbrigðiskerfið og spítalann - þá sé ég ekki annan möguleika í stöðunni. Það þarf að velja og það er stjórnvalda að ákveða  endanlega hvernig þau vilja gera það.“

Held að fólk yrði óhresst með hertar aðgerðir

Hvernig heldurðu að almenningur myndi taka í það ef samkomutakmarkanir yrðu hertar á nýjan leik? „Ég held að fólk yrði mjög óhresst með það og ég veit ekki hvernig stjórnvöld myndu taka í slíkar tillögur.“

Öllum valkvæðum aðgerðum á hjartadeild Landspítala hefur verið frestað að minnsta kosti út þessa viku eftir að fimm sjúklingar og hjúkrunarfræðingur greindust með COVID-19. Nú liggja 13 á Landspítala með COVID-19 og einn er á gjörgæslu. Tæplega 800 eru í umsjá COVID-göngudeildar spítalans og fjórðungur þeirra eru börn.

Már Kristjánsson yfirlæknir smitsjúkdómalækninga á Landspítalanum segir að farsóttarnefnd spítalans fundi daglega, en ekki hafi verið tekin ákvörðun um að færa spítalann upp á hærra viðbúnaðarstig. Hann segir áhrif þessarar fjölgunar smita verulega á starfsemi spítalans.

„Allt ber þetta að sama brunni, að gera starfsemina þyngri,“ segir Már.