Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Grafa lengstu neðansjávargöng heims á jarðskjálftasvæði

27.10.2021 - 11:29
Mynd með færslu
 Mynd: wikimedia commons
Norskir jarðvísindamenn telja Vegagerðina þar í landi hafa sýnt ábyrgðarleysi með ákvörðun um að grafa lengstu og dýpstu neðansjávargöng heims á virkasta jarðskjálftasvæði Noregs, án þess að gera áhættumat. 

Næstvirkasta jarðaskjálftasvæði norðan Alpafjalla

Vinna við fyrsta áfanga Rogfast-ganganna svokölluðu í Rogalandi er hafin en verklok eru áætluð árið 2031. Göngin eiga að liggja neðansjávar og tengja borgirnar Kristiansand, Stafangur, Haugasund og Björgvin. Stórþingið samþykkti framkvæmdina árið 2017. 

Norska ríkisútvarpið fjallar um málið í dag. Að Íslandi undanskildu er svæðið milli Stafangurs og Björgvinjar virkasta jarðskjálftasvæði norðan Alpafjalla. Stórir skjálftar, upp á sex eða sjö, eru mögulegir, en afar sjaldgæfir.

Í umfjöllun NRK er vísað í rannsókn sem bendir til þess að það séu um tíu prósent líkur á því að skjálfti, sem ógnað gæti mannslífum eða byggingum, verði einhvers staðar í Noregi á næstu hundrað árum. Slíkur skjálfti gæti þannig orðið á morgun eða eftir 5000 ár.

Ósammála um mikilvægið og ekki í fyrsta sinn

Jarðskjálftafræðingurinn Volkar Oye, er meðal þeirra sem gagnrýnt hafa framkvæmdina. Hann segir að með því að meta þol ganganna gagnvart stórum jarðskjálftum hefði mátt ganga úr skugga um að þau stæðu þá af sér, nú eða hannað þau betur, bendi matið til þess að þau séu of veikburða. Þetta þurfi ekki að vera mikil eða kostnaðarsöm vinna.

Oddvar Kaarmo, sem leiðir Rogfast-verkefnið, telur ekki þörf á að meta hvort jarðskjálftar ógni göngunum, aðrir áhættuþættir sem skipti meira máli hafi verið metnir. Hann segir þó gott að þessi sjónarmið komi fram nú, en ekki síðar.

Jarðskjálftafræðingar í Noregi hafa áður gagnrýnt norsku vegagerðina fyrir að huga ekki nóg að jarðskjálftahættu, siðast árið 2018 í tengslum við göngin undir Oslóarfjörð. 
 

 

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV