Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Ætla hús úr húsi til að telja íbúa í atvinnuhúsnæði

Atvinnuhúsnæði með íbúðum. Mynd úr safni. - Mynd: RÚV / RÚV
Farið verður hús úr húsi til að kortleggja hversu margir búa í atvinnuhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu. Þetta er gert til að huga að brunavörnum og tryggja öryggi íbúanna ekki til að reka fólk út á götu, slökkviliðsstjóri höfuðborgarsvæðisins leggur ríka áherslu á það. 

Félags- og barnamálaráðherra hefur frumkvæðið að verkefninu en Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins leiðir það  í samstarfi við Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, ASÍ og sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu. Gerður hefur verið bæklingur og opnuð vefsíðan homesafety.is til að útskýra verkefnið. Í síðustu talningu slökkviliðsins fundust 300-320 staðir þar sem fólk hafði búsetu. Talningin nú verður mun nákvæmari því farið verður í hvert hús.

„Vonum bara að það verði tekið vel á móti okkur því markmiðið er ekki að vera í einhverri rassíu að henda fólki út heldur að kortleggja og hafa stað til að standa á til að hafa áhrif á framtíðar lög og reglugerðir,“ segir Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri höfuðborgarsvæðisins.

Almennt er mikil þörf á að huga að brunavörnum. „Það er þörf á miklum úrbótum og umbótum hvort sem er í kerfinu eða framkvæmdinni eða lagaumgjörðinni,“ segir Anna Guðmunda Ingvarsdóttir, aðstoðarforstjóri Húsnæðis- og mannvirkjastofnun og bætir við „mjög margir Íslendingar búa í dag við mun lakari brunavarnir en þeir myndu gera ef þeir áttuðu sig á stöðunni.“

Anna Guðmunda segir að það hve margir búa í atvinnuhúsnæði endurspegli undirliggjandi íbúðaþörf. Þegar niðurstöðurnar liggi fyrir verði ríki og sveitarfélög að leysa þennan vanda. „Fólk leitar í húsnæði sem er ódýrt og gerir það eflaust af mörgum ástæðum. Það getur verið val og það getur verið í neyð. Það að búa í atvinnuhúsnæði getur skert réttindi þín til húsnæðisstuðnings og húsnæðisbóta og svo það sem tengist börnum, það er ekki sama öryggið.“

Mikil áhersla er lögð á að mæta íbúum af skilningi og fólk í hópi sem hefur verið sérþjálfaður til þess talar samtals sjö tungumál. „Við þurfum að ganga út frá því að fólk megi búa þar sem það vill en við verðum að að tryggja öryggi þess þar sem það býr,“ segir Aleksandra Leonardsdóttir, sérfræðingur í fræðslumálum hjá ASÍ.

Samhliða því að brunavarnir eru kannaðar á líka að kanna félagslega stöðu þeirra sem búa í atvinnuhúsnæði. „Það getur skapað ofboðslega mikla einangrun fyrir fólk þar sem það getur þjappast saman og búið í sínu eigin þjóðerni en aftur á móti getur það auðveldað aðgengi að vinnumarkaði þannig séð að búa nálægt staðnum sem þau vinna á,“ segir Aleksandra.

 

Hjördís Rut Sigurjónsdóttir