Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

100 dagar í setningu Vetrarólympíuleikanna í Peking

epaselect epa09548200 A woman visits Beijing Olympic Park, 100 days before the 2022 Beijing Winter Olympics, in Beijing, China, 27 October 2021. The 2022 Beijing Winter Olympics is scheduled to take place in 100 days from 04 to 20 February 2022, and the Paralympics from 04 March to 13 March 2022.  EPA-EFE/ROMAN PILIPEY
 Mynd: EPA-EFE - EPA

100 dagar í setningu Vetrarólympíuleikanna í Peking

27.10.2021 - 19:33
Þrátt fyrir að Ólympíuleikunum í Tókýó sé að því er virðist nýlokið þá eru aðeins hundrað dagar í næstu ólympíuveislu, nefnilega Vetrarólympíuleikana í Peking.

Leikarnir verða settir 4. febrúar en Peking verður þar með fyrsta borgin í sögu ólympíuleikanna til þess að halda bæði sumar- og vetrarólympíuleika en sumarólympíuleikarnir árið 2008 fóru fram í borginni. Margir af þeim leikvöngum sem nýttir voru þá verða sömuleiðis nýttir í febrúar en auk þess fara nokkrar greinar fram í fjöllunum fyrir utan borgina. 

Keppt verður í 102 keppnisgreinum í 15 íþróttagreinum á leikunum. Sjö nýjar keppnisgreinar verða teknar inn að þessu sinni en markmiðið er að auka þátttöku kvenna á leikunum og ná til yngri áhorfenda. Meðal nýrra greina er eins-kvenna bobbsleðabrun og „big-air“ greinar, sem og blandaðar liðakeppnir í til að mynda skautahlaupi. 

Heimsfaraldurinn mun hafa áhrif á leikanna í Peking, líkt og hann hafði á leikana í Tókýó. Það íþróttafólk sem ekki er bólusett mun þannig þurfa að vera í 21 dag í sóttkví við komuna til Kína og þau sem eru bólusett mega einungis ferðast innan ólympíuþorpsins. Einungis áhorfendur frá meginlandi Kína verða svo leyfðir á leikunum eins og staðan er í dag. 

En sem komið er hefur enginn íslenskur keppandi tryggt sér keppnisrétt á leikunum.