Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Öruggur fimm marka sigur á Kýpur

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Öruggur fimm marka sigur á Kýpur

26.10.2021 - 20:50
Ísland mætti Kýpur á Laugardalsvelli í kvöld. Leikurinn var þriðji leikur liðsins í undankeppni HM 2023. Ísland hafði öruggan sigur, 5-0, og er nú í öðru sæti C-riðils með sex stig eftir þrjá leiki.

Það var Dagný Brynjarsdóttir sem kom Íslandi yfir strax á 14. mínútu með góðum skalla. Á 21. mínútu fór Sveindís Jane Jónsdóttir upp kantinn og skoraði annað mark Íslands. Karólína Lea Vilhjálmsdóttir kom boltanum í markið stuttu síðar en Svava Rós Guðmundsdóttir var dæmd brotleg í aðdragandanum og markið fékk ekki að standa. Það kom ekki að sök af því Karólína skoraði mark rétt fyrir hálfleik, að þessu sinni var það ekki dæmt ólöglegt, og 3-0 staðan í hálfleik. 

Sveindís Jane skoraði sitt annað mark og fjórða mark Íslands eftir um tíu mínútur í seinni hálfleik og það varð svo Alexandra Jóhannsdóttir sem skoraði fimmta og síðasta mark Íslands eftir hornspyrnu frá Amöndu Jacobsen Andradóttur sem var að spila sinn fyrsta byrjunarliðsleik og aðeins annan A-landsliðsleik. 

Ísland leikur í C-riðli en sigurvegari riðilsins mun fara beint áfram í lokakeppnina. Liðið í öðru sæti kemst svo í umspil. Hér fyrir neðan má sjá stöðuna í riðli Íslands eftir leiki kvöldsins, Ísland er fjórum stigum á eftir toppliði Hollands en á leik til góða. 

Lið Leikir Sigrar Jafntefli Töp Markatala Stig
Holland 4 3 1 0 +12 10
ÍSLAND 3 2 0 1 +7 6
Tékkland 3 1 1 1 +4 4
Hvíta-Rússland 2 1 0 1 +1 3
Kýpur 4 0 0 3 -24 0