Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Óbólusett fá að keppa á opna ástralska eftir allt saman

epa09017306 Ashleigh Barty of Australia waits for Karolina Muchova of the Czech Republic to return from a medical time out during their Quarterfinals Women's singles match on Day 10 of the Australian Open Grand Slam tennis tournament at Melbourne Park in Melbourne, Australia, 17 February 2021.  EPA-EFE/DEAN LEWINS AUSTRALIA AND NEW ZEALAND OUT
 Mynd: EPA

Óbólusett fá að keppa á opna ástralska eftir allt saman

26.10.2021 - 11:29
Óbólusett tennisfólk fær eftir allt saman að keppa á opna ástralska meistaramótinu í tennis sem fram fer í janúar 2022. Ástralskur embættismaður hafði áður sagt að þau sem ekki hefðu fengið bólusetningu gætu ekki komið til landsins til að keppa.

Fyrir viku síðan sagði Daniel Andrews, embættismaður í Viktoríu-fylki, að honum þætti ólíklegt að þau sem væru ekki bólusett fengju vegabréfsáritun til að komast inn í landið. Svo virðist hins vegar vera að þau sem ekki eru bólusett geti keppt eftir allt saman, að því gefnu að þau fari eftir reglum um sóttkví. 

Sjá einnig: Óbólusettir útilokaðir - Djokovic gefur ekkert upp

Í frétt BBC um málið er haft eftir leikmannaráði Alþjóða tennissambandi kvenna (WTA) að þeim hafi verið tilkynnt að allir keppendur geti ferðast til Melbourne í janúar. Í bréfi sem sent var til leikmanna WTA kom fram að fullbólusettir keppendur þyrftu að fara í covid-próf 24 tímum eftir komuna til landsins en engar kröfur væru um sóttkví eða aðrar sóttvarnaraðgerðir. Þau sem eru ekki fullbólusett munu hins vegar þurfa að fara í 14 daga sóttkví á hóteli og fara í próf reglulega. 

Í tilkynningu frá stjórn mótsins segir að hún vonist eftir því að geta haldið mótið á sem eðlilegastan hátt en ekkert kom fram um áætlanir varðandi óbólusetta þátttakendur. Talsverður fjöldi tennisspilara eru óbólusettir, til að mynda 35% þeirra karla sem eru á ATP-túrnum. Ríkjandi meistarinn á opna ástralska, Serbinn Novak Djokovic, hefur ekki viljað gefa það út hvort hann sé bólusettur eða ekki og sagði enn fremur í síðustu viku að hann væri ekki viss hvort að hann myndi yfirhöfuð keppa á mótinu á næsta ári.