Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Bátsfólkið í Hörðalandi talið af

26.10.2021 - 03:26
epa09545331 Search and rescue workers climb a steep hill in search of three people that was taken by strong current when they try to cross the river in a boat at Steindalselvi in Kvam, Norway, 25 October 2021.  EPA-EFE/Marit Hommedal  NORWAY OUT
 Mynd: EPA-EFE - NTB
Kona og tveir karlar sem saknað hefur verið í Hörðalandsfylki í Vestur-Noregi eru talin af. Fólkið sem er frá Askey hugðist róa árabáti yfir Langvotnevatn en þungur straumur hreif bátinn með sér í straumharða Tokagjelsána.

Fólkið var ásamt hundi sínum á leið yfir vatnið að bústað handan þess. Víst þykir að báturinn með fólkið innanborðs hafi farið fram af 15 metra stíflu í ánni í fyrrakvöld. Fjöldi fólks leitaði við erfiðar aðstæður í gærdag og gærkvöld en án árangurs. 

Í umfjöllun norska ríkisútvarpsins um málið kemur fram að kafarar hafi leitað í og við vatnið en björgunarsveitir fundu föt og mannlausan grænan árabát sem talinn er vera sá sem bar fólkið. Hundar voru einnig notaðir við leitina en þar sem fólkið er talið látið verður dregið úr viðbúnaði í nótt.