Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Bandaríkjastjórn fordæmir valdatöku hersins í Súdan

epa09545076 A Sudanese protester holds a national flag during a demonstration in the capital Khartoum, Sudan, 25 October 2021. Sudan's military launched a coup attempt, and arrested the Prime Minister Abdalla Hamdok and other senior ministers and civilian members of the Transitional Sovereignty Council during early morning raids, as thousands of people gather for protest the attempt in the capital, Khartoum.  EPA-EFE/MOHAMMED ABU OBAID
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Bandaríkjastjórn fordæmir valdarán Súdanhers harðlega og krefst þess að borgaralegri stjórn landsins verði færð völdin að nýju. Jafnframt er þess krafist að forsætisráðherra landsins verði umsvifalaust leystur úr haldi.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu Antonys Blinken utanríkisráðherra sem jafnfram lýsir þungum áhyggjum af valdbeitingu hersins gegn mótmælendum í landinu.

Sveitir hersins handtóku ráðherra í ríkisstjórn landsins í morgun og fulltrúa almennra borgara í starfsstjórn Súdan. Hún hefur starfað frá árinu 2019 þegar einvaldurinn Omar al-Bashir var hrakinn frá völdum.

Borgaraleg öfl og herinn deildu völdum eftir valdatökuna. Leiðtogi valdaránsins, hershöfðinginn Abdel Fattah Burhan, segir pólitísk ágreiningsmál hafa verið kveikju valdaránsins.

Herinn handsamaði einnig forsætisráðherrann Abdalla Hamdok í morgun þegar hann neitaði að styðja valdatöku hersins. Sameinuðu þjóðirnar fordæma einnig valdaránið og krefjast frelsunar forsætisráðherrans.

Öryggisráðið kemur saman á morgun til að ræða stöðuna í Súdan. Mikil mótmæli brutust út í höfuðborginni Khartoum í kjölfar valdaránsins en minnst sjö mótmælendur féllu fyrir byssukúlum hersins og um 140 særðust.