Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Verðhrun á hlutabréfum í SAS

25.10.2021 - 14:14
epa07529648 SAS airplanes on a tarmac at the Oslo Gardermoen airport during SAS Scandinavian airlines pilots strike in Oslo, Norway, 26 April 2019. Hundreds of SAS Scandinavian airlines pilots from Norway, Sweden and Denmark went on strike after talks on wage failed. According to reports, some 170,000 travellers can be affected with cancelled or delayed flights during the weekend.  EPA-EFE/OLE BERG RUSTEN NORWAY OUT
 Mynd: EPA-EFE - NTB SCANPIX
Verð hlutabréfa í flugfélaginu SAS féll umtalsvert í dag eftir að Anko van der Werff, forstjóri þess, sagði í viðtali að fyrirtækið yrði að lækka rekstrarkostnað, ella stefndi það í gjaldþrot. Þetta var haft eftir honum í danska viðskiptablaðinu Finans. Upp úr hádegi höfðu hlutabréf í fyrirtækinu lækkað um fjórtán prósent í kauphöllinni í Stokkhólmi og virði þess lækkað um rúmlega tólf milljarða íslenskra króna.

Í viðtalinu við Finans sagði van der Werff meðal annars að það kostaði átök að breyta rekstri SAS þannig að það ætti framtíð fyrir sér. Ýmis vandamál steðjuðu að svo sem að viðskiptaferðir hefðu dregist saman og samningar við stéttarfélög starfsfólksins væru rekstrinum þungir í skauti. Allir yrðu að taka þátt í að bjarga flugfélaginu til að það gæti þrifist, vaxið og skapað ný störf.

Verulega var dregið úr umfangi SAS í fyrra, þegar fækkað var um fimm þúsund störf. Það samsvarar því að fjörutíu prósent starfsfólksins hafi misst vinnuna. Í maí var tilkynnt að dregið yrði á lánalínur frá ríkisstjórnum Danmerkur og Svíþjóðar upp á jafnvirði 45 milljarða íslenskra króna til að koma fyrirtækinu í gegnum kreppuna.

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV