Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Þrír nýliðar í landsliðshópnum fyrir undankeppni EM

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú

Þrír nýliðar í landsliðshópnum fyrir undankeppni EM

25.10.2021 - 15:09
Benedikt Guðmundsson, landsliðsþjálfari kvenna í körfubolta, hefur valið hópinn sem mun taka þátt í fyrstu tveimur leikjunum í undankeppni Evrópumótsins 2023. Ísland mætir Rúmeníu og Ungverjalandi í nóvember

 

Auk Rúmeníu og Ungverjalands eru Spánverjar með Íslendingum í riðli. Leikið er heima og að heiman og liðið sem lýkur keppni í efsta sæti fer beint á EM. Liðið í öðru sæti gæti svo átt möguleika á að fara áfram. Leikið verður gegn Rúmeníu á útivelli þann 11. nóvember og við Ungverja á Ásvöllum 14. nóvember. Báðir leikirnir verða í beinni útsendingu á RÚV. 

Ólafur Jónas Sigurðsson, þjálfari kvennaliðs Vals, er nýr aðstoðarþjálfari liðsins fyrir komandi verkefni en Danielle Rodriguez sem hefur gengt því hlutverki er flutt af landi brott. Hildur Björg Kjartansdóttir, Val, og Isabella Ósk Sigurðardóttir, Breiðablik, eru báðar meiddar og geta ekki tekið þátt í verkefninu, sem og Guðbjörg Sverrisdóttir. Sigrún Björg Ólafsdóttir, sem spilar körfubolta í háskóla í Bandaríkjunum var valin í hópin en gat ekki tekið þátt í verkefninu vegna anna í skólanum. 

Þrír nýliðar eru í hópnum sem Benedikt valdi, þær Anna Ingunn Svansdóttir, leikmaður Keflavíkur, Dagný Lísa Davíðsdóttir, leikmaður Fjölnis og Elísabeth Ýr Ægisdóttir, leikmaður Hauka. Helena Sverrisdóttir er lang reynslumesti leikmaður liðsins en hún hefur spilað 77 landsleiki. 

Íslenski hópurinn er eftirfarandi:

Anna Ingunn Svansdóttir · Keflavík (Nýliði)
Ásta Júlía Grímsdóttir · Valur (2)
Bríet Sif Hinriksdóttir · Haukar (6)
Dagbjört Dögg Karlsdóttir · Valur (8)
Dagný Lísa Davíðsdóttir · Fjölnir (Nýliði)
Embla Kristínardóttir · Skallagrímur (21)
Elísabeth Ýr Ægisdóttir · Haukar (Nýliði)
Hallveig Jónsdóttir · Valur (25)
Helena Sverrisdóttir · Haukar (77)
Lovísa Björt Henningsdóttir · Haukar (6)
Sara Rún Hinriksdóttir · Phoenix Constanta, Rúmenía (23)
Þóra Kristín Jónsdóttir · AKS Falcon, Danmörk (21)