Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Sjö hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í einangrun

Mynd með færslu
 Mynd: Lögreglan á höfuðborgarsvæ? - Aðsend mynd
Sjö starfsmenn Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu eru í einangrun vegna COVID-19 og tíu til viðbótar eru í sóttkví. Þetta kemur fram í tilkynningu lögreglunnar til fjölmiðla. Til að gæta fyllsta öryggis er áætlað að tvö hundruð starfsmenn embættisins fari í skimun.

Þrátt fyrir stöðuna gengur starfsemi embættisins fyrir sig með eðlilegum hætti og hefur ekki áhrif á þau útköll sem lögreglan þarf að sinna, segir í tilkynningunni. „Sú staða sem er uppi minnir okkur hins vegar á að COVID-19 er hvergi nærri lokið og því mikilvægt að fara varlega og huga að sóttvörnum í hvívetna,“ segir þar jafnframt. 

Talið er að smitin hafi komið upp á námskeiði sem bæði almennir lögreglumenn og rannsóknarlögreglumenn sóttu, að sögn Þóru Jónasdóttur, starfandi yfirlögregluþjóns hjá embættinu. Rætt var við hana í útvarpsfréttum. Þá eru smitin að mestu leyti á einni lögreglustöð. Enginn er alvarlega veikur. Þóra segir að hægt sé að manna allar vaktir, þrátt fyrir stöðuna. Fólk taki á sig meiri ábyrgð og komi á aukavaktir. 

Þóra segir að lögreglan hafi sloppið vel í faraldrinum enda sé passað einstaklega upp á sóttvarnir. Lögreglumenn séu með grímur og mikið sé lagt upp úr sótthreinsun. Það komi þó upp aðstæður þar sem ekki sé hægt að halda eins til tveggja metra fjarlægð, til dæmis þegar verið er að handtaka fólk. 

Smittölur síðustu daga á á vefnum covid.is hafa ekki verið uppfærðar í dag. Fram kemur á vef Landspítalans að 82 hafi verið skráðir inn á covid-göngudeildina í gær, 65 fullorðnir og 17 börn. 

Fréttin hefur verið uppfærð. 

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir