Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Segja fjarnámsframboð í HÍ til skammar á tæknitímum

25.10.2021 - 09:44
Mynd með færslu
 Mynd: Bjarni Rúnarsson - RÚV
Háskóli Íslands stendur sig afar illa í að bjóða upp á fjarnám fyrir fólk á landsbyggðinni. Þetta er mat tveggja kvenna sem safna nú undirskriftum til að knýja á um úrbætur.

Stefanía Hrund Guðmundsdóttir starfar sem verslunarstjóri hjá N1 á Reyðarfirði. Hana dreymir um að mennta sig og að nýta menntunina í heimabyggð. Vandamálið er að Háskóli íslands býður ekki upp á fjarnám nema í einstaka greinum. „Mig langaði í félagsráðgjöf af því að þetta er nám sem hefur alltaf vakið áhuga minn og ég veit að þetta er eitthvað sem vantar. Það vantar faglært fólk hérna það er alltaf verið að auglýsa eftir þessu og mig langaði að hafa þessa gráðu til að geta nýtt hana í minni heimabyggð og hjálpað til hér. Það eru mjög fáir áfangar sem eru í boði í heildina það er aðallega á menntavísindasviði þar sem þú kemst í fjarnám. Í okkar námi í félagsráðgjöfinni þá eru engir áfangar kenndir. Það er möguleiki að við hefðum komist í einn eða tvo með því að tuða í kennurum.  Fjarnámsúrvalið í Háskóla Íslands er bara til skammar á þessum tæknitímum sem við erum með. Það er eiginlega ekkert kennt í fjarnámi. Við störtuðum undirskriftasöfnun og á viku, það er vika síðan við byrjuðum, þá hafa 2948 skrifað undir hana, þar sem við erum bara að hvetja menntamálaráðherra og rektor skólans til að endurskoða þetta og fara að bjóða upp á meira fjarnám,“ segir Stefanía.

Hún og vinkona hennar Agnes Klara Ben Jónsdóttir sem er í sömu sporum hafa fengið mikinn stuðning og upplýsingar frá fólki um allt land, ekki aðeins um skort á fjarnámi við HÍ heldur líka um stífni. Fólk er neytt til að fljúga suður til að taka próf þó öll aðstaða sé fyrir austan. „Þetta er mjög mikilvægt mál fyrir landsbyggðina því að þetta skiptir okkur öllu því eins og rektorinn á Akureyri sagði í viðtali að ef við flytjum suður og förum í nám þá eru 30% líkur á að við komum heim og vinnum í heimabyggð,“ segir Agnes.

„Mig langar bara ekkert að fara. Ég er fædd og uppalin hérna og langar að vera hérna. Og mér finnst ég ekki eiga þurfa að eyða bæði mínum tíma og peningum í að flytja suður til Reykjavíkur þar sem mig langar ekki að búa bara til þess að læra. Við tókum báðar BA-gráðurnar okkar í Háskólanum á Akureyri alveg í fjarnámi. Við erum bara með þá tækni í dag að þetta á ekkert að vera neitt flókið. Það komu COVID-tímar. Þá var HÍ með allt í fjarnámi þannig að við vitum að þeir hafa búnaðinn og getuna til að gera þetta. Það virðist bara dálítið vanta viljann,“ segir Stefanía.

Á vefsíðunni change.org má skrifa undir áskorun um bætt fjarnám.