Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Kynósa þjóð gerði rómantík úr viðbjóðslegum morðum

Mynd: Kiljan / RÚV

Kynósa þjóð gerði rómantík úr viðbjóðslegum morðum

25.10.2021 - 13:30

Höfundar

Þórunn Jarla Valdimarsdóttir fjallar um morðin á Illugastöðum í nýrri bók. „Þetta var illska og græðgi,“ segir hún um málið, sem þjóðin hefur haft á heilanum í nærri tvær aldir.

Bókin heitir Bærinn brennur. Í henni varpar Þórunn nýju ljósi á morðið á Natani Ketilssyni sem leiddi til síðustu aftökunnar á Íslandi.

Árið 1828 myrti Friðrik bóndasonur í Katadal nágranna sinn, bóndann og lækninn Natan Ketilsson á Illugastöðum í Húnavatnssýslu. Ráðskona Natans, Sigríður, og vinnukona hans, Agnes, lögðu á ráðin með Friðriki, eggjuðu og veittu dygga aðstoð.

„Þetta voru svo viðbjóðsleg morð,“ segir Þórunn í viðtali í Kiljunni á RÚV. „Þetta var illska og græðgi.“ Þremenningarnir brenndu svefnhús Natans til að leyna verknaðinum sem framinn var í auðgunarskyni og hjálpuðust að við að fela þýfið svo að það yrði ekki eldinum að bráð.

Ekkert æsir fólk eins og kynlíf og ofbeldi

„Maðurinn minn heitinn, Eggert Þór Bernharðsson, hann bað mig að skrifa bókina. Hann dó með sviplegum hætti eftir hart jólabókaflóð, þreyttur eftir mikla vinnu, fékk bara hjartaáfall og hann hafði beðið mig áður en hann dó að skrifa bók um þetta efni fyrir almenning. Honum sveið þegar hann var 11 ára gamall, þá les hann eftir Brynjólf frá Minna-Núpi að forfaðir hans, Guðmundur, hafi boðist til þess að gerast böðull og við þurfum ekkert að leita langt, hvergi í heiminum býðst neinn til að vera böðull.“

Mynd með færslu

Nákvæmar yfirheyrslur yfir sakborningunum og sveitungum þeirra eru raktar í bókinni, sem færir lesendur nær því sem í raun gerðist. „Þessi kynósa þjóð hún þurfti að gera einhverja rómantík úr þessu,“ segir Þórunn. „Það voru allar þessar dásamlegu, safaríku kjaftasögur og ekkert æsir fólk eins mikið og kynlíf og ofbeldi.“ 

Bókin er rannsókn á heimildum, segir hún. „En það er ekki hægt að gera þetta leiðinlega, þetta er allt svo skemmtilegt. Ég er að bera saman bestu heimildirnar, þar hefurðu sannan kjarna að standa á, þar höfum við grjót undir fæti. Það er miklu betri mynd af öllu. Hún er skýrari og hún er ljótari. Sagnamennirnir fóru að búa til fantasíu eins og slúður gerir.“

Það má heyra á Þórunni að henni þykir Natan Ketilsson, sem var þar myrtur ásamt Fjárdráps-Pétri, hafa fengið ósanngjarna meðferð í sögunni. „Ég held að hann hafi farið í taugarnar á öllum ekki síst af því hann var sætur og sexí, hann átti þrjú börn með Vatnsenda-Rósu, þá á Lækjarmóti og samt var eiginmaðurinn á staðnum. Hann átti fimm börn og í lausaleik og það er alveg greinilegt að hann var mikill kvennabósi. Og hún orti þarna ægilegt saknaðar-kvæði hún Vatnsenda-Rósa. Þannig að hann er sætur, klár, skemmtilegur og hann er sigldur.“

Natan var hómópati og kunni fyrir sér í lækningum. „Hann var heilan vetur í apóteki í Kaupmannahöfn og kunni heilan helling þannig. Hann var góður læknir, allir sammála um það. En er það ekki bara hin klassíska íslenska illgirni sem ákveður að maður sem er svona stéttvillingur, sem passar ekki alveg inn í og hegðar sér ekki alveg rétt, að þá fóru miklu ljótari sögur af stað um hann. En hann var hrekkjóttur. Hann hafði alveg fullt af göllum.“

Níð og fjölmæli í heimsþekktri bók

Árið 2013 kom út eftir ástralskan rithöfund, Hönnuh Kent, söguleg skáldsaga sem byggist á atvikunum. Bókin vakti mikla athygli um heim allan, vann til fjölda verðlauna og til hefur staðið að gera kvikmynd eftir henni í þónokkur ár, með Hollywood-stjörnunni Jennifer Lawrence í hlutverki Agnesar, en Agnesi lýsir Þórunn sem ófríðum niðursetningi og dýraníðingi.

„Ég var stödd í Mexíkó sumarið 2014 þá hitti ég sæta kellingu úti á götu og fór að daðra eins og maður gerir. Þá sagðist hún vera að lesa bók um morðmál sem gerist á Íslandi, sem var þá bókin eftir áströlsku konuna. Þannig að ég hugsaði, mikið er heimurinn lítill.“

Bókin fer ekki vel með staðreyndir þessa flókna máls og Þórunni rann blóðið til skyldunnar. „Þá kemur sagnfræðingurinn í mér og segir: Það hét níð í gamla daga og fjölmæli. Þá fékk ég ástríðuna sem ég þarf alltaf að hafa. Annars er ég að gera þetta fyrir Eggert úr því hann vildi það. Svo er þetta bara ógeðslega skemmtilegt. Þegar er verið að kvelja eða níðast á einhverjum þá verður minn innri maður reiður.“

Egill Helgason ræddi við Þórunni Jörlu Valdimarsdóttur um bókina Bærinn brennur í Kiljunni á RÚV.