Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Halls sagt upp vegna brota á skotvopnareglum árið 2019

25.10.2021 - 23:54
epa04025097 A Fulton County Sheriff's Office deputy checks a handgun during a gun buyback event sponsored by the NAACP in Atlanta, Georgia, USA, 16 January 2014. The event, which paid individuals between 50 and 100 US dollars per weapon, collected
 Mynd: EPA
Dave Halls, aðstoðarleikstjóra vestrans Rust var sagt upp störfum við kvikmyndaverkefni árið 2019 vegna brota á öryggisreglum varðandi skotvopn. Mjög strangar reglur gilda um notkun skotvopna á tökustöðum kvikmynda.

Það var Halls sem afhenti leikaranum Alec Baldwin byssuna sem skot hljóp úr og varð tökustjóranum Halynu Hutchins að bana. Halls staðhæfði að skotvopnið væri óhlaðið. 

Hann var umsvifalaust látinn hætta störfum við kvikmyndina Freedom's Path árið 2019 eftir að starfsmaður særðist lítillega þegar hann varð fyrir byssukúlu úr leikmunabyssu. Tökum var ekki haldið áfram fyrr en Halls var horfinn á braut.

Skýrsla var gerð um málið á sínum tíma. AFP-fréttastofan hefur þetta eftir einum framleiðenda myndarinnar sem enn hefur ekki komið fyrir almenningssjónir.

Fréttir hafa borist af því að starfsfólk við gerð Rust hafi notað hlaðnar leikmunabyssur við skotæfingar að morgni fimmtudagsins sem Hutchins varð fyrir voðaskotinu. 

Strangar reglur gilda um notkun skotvopna á tökustað

Mjög strangar öryggisreglur gilda um meðhöndlun skotvopna við kvikmyndagerð. Í reglunum segir að enginn megi hlaða skotvopn nema leikmunavörður, vopnasérfræðingur eða reynt starfsfólk eftir leiðbeiningum þeirra. 

Áður en leikmunabyssa er notuð þarf að tryggja að kúlur leynist ekki henni, til dæmis með því að hleypa af skoti fjarri tökustað. Eins beri leikmunaverði að sjá til þess að aðskotahlutir leynist ekki í skothólki eða hlaupi byssunnar.