Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Gerlegt að ljúka kjörbréfarannsókn í næstu viku

Birgir Ármannsson
 Mynd: Hjalti Haraldsson - Skjáskot
Formaður undirbúningsnefndar fyrir rannsókn kjörbréfa segir gerlegt að ljúka vinnunni í næstu viku. Gert er ráð fyrir daglegum fundum þangað til.

Nefndin situr núna á sínum fjórtánda fundi og hefur boðað aðra sex af þeim tólf sem kært hafa talninguna í Norðvesturkjördæmi á fundinn, en fyrir helgi komu þeir fyrri sex.  Birgir Ármannsson formaður undirbúningsnefndarinnar segir að málin séu smám saman að skýrast, upplýsingaöflun standi yfir og síðustu þættirnir ættu að nást á næstu dögum.

„Þegar við höfum náð saman þeim upplýsingapakka sem við teljum okkur þurfa til að byggja á, þá þarf nefndin auðvitað að  taka umræður í sínum hópi um það  hvernig beri að meta stöðuna, meta málin á grundvelli þeirra upplýsingar sem við höfum fengið en líka á grundvelli þeirra lagaákvæða sem að við eigum að fylgja  í okkar störfum,“ segir Birgir Ármannsson formaður undirbúningsnefndarinnar.  

Hann segir að gert sé ráð fyrir daglegum fundum nefndarinnar þessa viku, en það sé bjartsýni að ætla að það takist að klára málið fyrir helgi, en ágætlega miði. Spurður hvort hann geri sér vonir um að málið klárist í næstu viku, segir Birgir:

„Ég held að það sé gerlegt, en við verðum að sjá hvernig næstu dagar nýtast okkur.“
 

 

holm's picture
Haukur Holm
Fréttastofa RÚV