Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Bubbi þurfti að ganga lengi á eftir Katrínu Halldóru

Mynd: GH / RÚV

Bubbi þurfti að ganga lengi á eftir Katrínu Halldóru

25.10.2021 - 12:18

Höfundar

Katrín Halldóra Sigurðardóttir, leik- og söngkona sem gefur nú út sína fyrstu sólóplötu, velur ekki verkefni af léttúð. Þegar Bubbi Morthens sóttist eftir því að syngja með henni þurfti hann að leggja nokkur lög fyrir hana áður en það rétta kom.

Lagið Án þín, sem Katrín Halldóra og Bubbi sungu saman á plötunni Regnbogans stræti árið 2019 og naut mikilla vinsælda, hefði mögulega ekki orðið að veruleika ef ekki hefði verið fyrir kostvendni Katrínar.

Bubbi hafði séð leiksýninguna Elly og líkt og svo margir aðrir hreifst hann af Katrínu Halldóru í aðalhlutverkinu. „Hann kom á Elly og langaði að fá mig til að syngja á Regnbogans stræti. Ég sagðist vera til í að skoða það. Það fylgir því ábyrgð að taka við lögum, þú þarft að vera andlit lagsins og ég hef það fyrir reglu að það sem ég tek mér fyrir hendur þarf sérstaklega að kalla á mig. Mér finnst það fín regla.“

Fyrsta lagið sem Bubbi sendi Katrínu hitti hana ekki vel fyrir. „Mælirinn minn, sem er inni í hjartastöðinni minni, sagði að þetta væri ekki lag fyrir mig. Ég sagði því: Takk æðislega Bubbi, en nei takk.“

Þetta kom heldur flatt upp á Bubba, segir Katrín, en hann hafi ekki látið deigan síga og gerði aðra tilraun. „Því miður var það heldur ekki lag sem ég beið eftir. Svo sendi hann þriðja lagið og það var þetta lag, Án þín, það var eitthvað við textann og melódíuna sem greip mig. Ég er ótrúlega ánægð, þetta er rosalega vinsælt lag og þetta lag hefði ekki orðið til ef ég hefði sagt já við hinum tveimur.“

Katrín sagði frá þessu í Mannlega þættinum á Rás 1, þar sem frumflutt var nýtt lag með henni af væntanlegri sólóplötu þar sem hún heiðrar lagahöfundinn Jón Múla Árnason.

„Mig hefur vantað eitthvað til að gera eftir Elly-ævintýrið allt saman. Söngferillinn minn er kominn svo langt af stað og ég elska að syngja,“ segir Katrín. Á plötunni eru 10 lög Jóns Múla við texta bróður hans, Jónasar Árnasonar. Haukur Gröndal útsetur lögin og koma margir af færustu hljóðfæraleikurum landsins við sögu á plötunni ásamt Páli Óskari, sem þar er gestasöngvari.

Katrín lofar ljúfri og þægilegri jazzplötu sem sé tilvalin fyrir matarboð. Platan kemur út 29. október og verður útgáfunni fagnað með tónleikum í Hörpu 13. nóvember.

 

 

 

Tengdar fréttir

Tónlist

Katrín Halldóra og Bubbi frumflytja Án þín