
Vill að Arabaríki hætti eðlilegum samskiptum við Ísrael
Sameinuðu arabísku furstadæmin, Barein, Súdan og Marokkó tilkynntu öll um þessa stefnubreytingu í garð Ísraels á síðasta ári. Fram að því áttu aðeins Egyptaland og Jórdanía í eðlilegum stjórnmálasamskiptum við Ísrael.
Donald Trump þáverandi Bandaríkjaforseti gerði sættir Ísraela og Arabaríkja að meginmarkmiði utanríkisstefnu sinnar undir lok valdatíðar sinnar. Khameinei sagði í ávarpi í morgun að ríkin hefur augljóslega gert mistök.
„Ríkisstjórnir gerðu alvarlega skyssu með því að koma á eðlilegum samskiptum og eru því syndugar, því ættu þær að snúa ákvörðun sinni við og bæta fyrir mistökin“ sagði Khameini.
Hann kvað ákvörðunina rjúfa samvinnu múslímaríkja og kallaði Ísraelsstjórn öllum illum nöfnum. Khameini fullyrti jafnframt að héldist eining múslímaríkja tryggði það farsæla lausn Palestínudeilunnar.
Erkiklerkurinn flutti ávarp sitt í tilefni hátíðisdags múslíma sem fagna fæðingardegi spámannsins Múhammeðs. Allt frá byltingunni 1979 lítur klerkastjórnin í Íran á sig sem helsta talsmann málstaðs Palestínumanna.
Hörð orðaskipti hafa verið milli Íran og Ísrael undanfarið vegna kjarnorkusamnings Írans við vesturveldin. Íranir hafa lengi sakað Ísreala um að standa að baki skemmdarverkum sem unnin hafa verið á kjarnorkuverum.
Ali Shamkhani öryggisráðgjafi ríkisstjórnarinnar hótaði Ísraelsmönnum í morgun hörðum viðbrögðum létu þeir af hótunum sínum um árásir á kjarnorkukerfi landsins.