Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Þurfa nú að semja um grundvallarmálin

prófessor í stjórnmálafræði
 Mynd: Kristján Þór Ingvarsson - RÚV
Prófessor í stjórnmálafræði segir að stjórnarflokkunum gæti reynst erfiðara að ná saman um grundvallarmál við myndun nýrrar ríkisstjórnar. Ekki gangi til lengdar að láta slík mál sitja á hakanum.

Fjórar vikur eru síðan úrslit alþingiskosninga lágu fyrir og hafa formenn stjórnarflokkanna átt í stöðugum viðræðum síðan. Formennirnir hafa lítið gefið upp um gang viðræðnanna og ekki hafa borist fréttir af hvaða málefni hafa verið rædd.

Eiríkur Bergmann, prófessor í stjórnmálafræði, segir fjórar vikur í sjálfu sér ekki langan tími til viðræðna, sérstaklega í ljósi þess að stjórnin hélt velli og hér sé engin stjórnarkreppa. En leyndarhjúpurinn sé óvenjulegri. „Eiginlega er það helsta einkennið á þessum stjórnarmyndunarviðræðum hversu lítið er einhvern veginn af þeim að frétta. Við fáum ekki mikla mola út úr þessu og þetta fley virðist ekki sérstaklega lekt miðað við mörg önnur sem hefur verið reynt að klastra saman áður.“

Eiríkur bendir á að ríkisstjórnin sé óvenjulega saman sett. Flokkarnir séu á öndverðum pólum og þegar þannig beri undir standi mörg mál út af. „Eðli svona breiðra stjórna er það að þau ná gjarnan illa saman um breytingar á grundvallarmálum. Í grundvallarmálum ná þau yfirleitt bara saman um að breyta sem minnstu. Það gengur yfir stuttan tíma en þegar að svona ríkisstjórn heldur áfram þá gengur það kannski ekki lengur að láta risastór mál sitja á hakanum.“

Nefnir Eiríkur í því samhengi heilbrigðismálin. Hann telur þó að flokkarnir ætli sér að ná saman, í það minnsta virðist þeir ekki vera að skoða aðra kosti eins og oft vill verða í stjórnarmyndunarviðræðum.

Magnús Geir Eyjólfsson