Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Stuðningsmenn harðorðir gegn eigendum Newcastle

Mynd með færslu
 Mynd: Holmesdale Fanatics - Twitter.com

Stuðningsmenn harðorðir gegn eigendum Newcastle

24.10.2021 - 05:30
Lögreglan í Croydon í Bretlandi hóf í gær rannsókn vegna borða sem stuðningsmenn Crystal Palace í ensku úrvalsdeildinni héldu á lofti á meðan leik liðsins gegn Newcastle stóð. Lögreglan segir að henni hafi borist tilkynning um særandi borða, og öllum ásökunum um kynþáttaníð verði tekið alvarlega, hefur Guardian eftir yfirlýsingunni.

Á borðanum mátti sjá sádiarabískan mann, merktan nýjum eigendum Newcastle PIF, í þann munda að afhöfða skjó, einkennisfugl félagsins. Á borðanum er einnig teikning af Richard Masters, framkvæmdastjóra ensku úrvalsdeildarinnar, taka á móti peningabúnti frá Sádum með þumalinn á lofti. Við hlið Masters er skjal, með áletruninni „Eigendapróf ensku úrvalsdeildarinnar.“ Þar er búið að haka við hugtök á borð við hryðjuverk, afhöfðanir, mannréttindabrot, morð, ritskoðun og ofsóknir.

Holmesdale Fanatics, stuðningsmannahópur Crystal Palace sem mætti með borðann, sagði í yfirlýsingu eftir leik að úrvalsdeildin hafi valið peninga umfram siðferði þegar þeir leyfðu yfirtöku sádíarabíska fjárfestingasjóðsins. Þannig hafi þeir átt viðskipti við blóðugustu og mest kúgandi stjórnvöld heims. Þá segja samtökin að þeim þyki veruleg hræsni að samþykkja slíka yfirtöku á sama tíma og úrvalsdeildin geri fótbolta kvenna hátt undir höfði og taki undir baráttumál hópa sem berjist fyrir réttindum minnihlutahópa á borð við hinsegin fólks með regnbogaarmböndum.

Annar stuðningsmannahópur Palace, Proud and Palace, lét einnig í ljós óánægju sína með eigendaskiptin í Newcastle. Hópurinn inniheldur hinsegin stuðningsmenn félagsins. Þeir birtu myndband á Twitter þar sem athygli var vakin á varðhaldi Suhail al-Jameel í Sádi Arabíu. Þar situr hinn 23 ára gamli í fangelsi í þrjú ár fyrir samkynhneigð, auk þess sem hann þurfti að þola 800 svipuhögg. Talskona Proud and Palace sagðist ekki trúa því að eigendur af þessu tagi eigi rétt á sér í úrvalsdeildinni, og hópurinn haldi áfram að vekja athygli á mannréttindabrotum.

Stjórnarformaður Leeds United, Angus Kinnear, lét einnig undrun sína í ljós í leikskrá félagsins í gær. Þar sagði hann fjölmiðla og almenning velta því fyrir sér hvers vegna eigendapróf úrvalsdeildarinnar sé auðveldara viðfangs en samræmdu prófin í leikfimi. Hann sagði hlutskipti eigenda annarra liða nú vera að fylgjast með því hvernig nýir eigendur Newcastle taki á gildum á borð við jafnrétti og fjölbreytni, sem séu kjarninn hjá félögum deildarinnar. Þá segir hann þetta kjörið tækifæri fyrir félögin til þess að fara í löngu tímabæra endurskoðun á reglum um fjármögnun og auglýsingar í deildinni.

Tengdar fréttir

Fótbolti

Eigendum liða bannað að vera líka kostendur

Stjórnmál

Vilja neyðarfund vegna umdeildrar yfirtöku á Newcastle

Fótbolti

Yfirtakan á Newcastle gengin í gegn