Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Stefnt að kosningum um sameiningu í upphafi nýs árs

Mynd: RÚV / Sölvi Andrason
Formlegar viðræður eru hafnar um sameiningu sveitarfélaganna tveggja í Skagafirði, Akrahrepps og Sveitarfélagsins Skagafjarðar. Stefnt er að kosningum um sameiningu í upphafi nýs árs.

Stjórnendur þessara tveggja sveitarfélaga tóku tal saman um sameiningu í vor og það leiddi til formlegra viðræðna í september. 

Þótti tímabært að skoða sameiningu fyrir alvöru

Hrefna Jóhannesdóttir, formaður samstarfsnefndar um sameiningu, segir að í ljósi umræðunnar um sveitarstjórnarstigið og eflingu þess hafi þótt tímabært að skoða þetta fyrir alvöru. „Hvaða þýðingu það myndi hafa fyrir sveitarfélögin ef þau myndu sameinast og kalla eftir sjónarmiðum íbúanna og leyfa þeim síðan að kjósa um þessi mál.“

Samstarf um flestalla málaflokka

Mikill stærðarmunur er á sveitarfélögunum, bæði landfræðilega og hvað íbúafjölda varðar. Ekkert þéttbýli er í Akrahreppi og mestöll þjónustan er hjá Sveitarfélaginu Skagafirði. Þá eiga sveitarfélögin þegar í miklu samstarfi um flestalla málaflokka.

Fyrst kosið um sameiningu í Skagafirði 1993

Fyrst var kosið um sameiningu sveitarfélaga í Skagafirði árið 1993. Þá felldu íbúar í Akrahreppi sameiningu. Og síðan þá hefur Akrahreppur ýmist afþakkað þátttöku í sameiningarviðræðum eða tillaga um sameiningi verið fellt í sveitarfélaginu.

Fyrst og fremst verið að sameina stjórnsýsluna

Hrefna segir að nú skipti máli að ljúka þeirri greiningarvinnu sem standi yfir og kynna allar forsendur vel fyrir íbúunum. „Mér finnst mikilvægt að það komi fram að það sem við erum fyrst og fremst að gera núna, er að sameina stjórnsýsluna í þessum sveitarfélögum og samþætta þjónustuna þannig að íbúar beggja sveitarfélaganna eigi rétt á sömu þjónustu. Síðan viljum við nota tækifærið og efla þess samvinnu okkar varðandi sameiginlega hagsmuni sveitarfélaganna beggja.“

Stefnt að kosningum í upphafi nýs árs

Áætlað er að leggja endanlega tillögu um sameiningu fyrir sveitarstjórnirnar lok í nóvember og eftir kynningu í kjölfarið er stefnt að kosningum um sameiningu í lok janúar eða byrjun febrúar. „Og ef að íbúar samþykkja þessa tillögu okkar, þá yrði kosið í sameinuðu sveitarfélagi í næstu sveitarstjórnarkosningum í maí,“ segir Hrefna.