Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Sjötugasti heimsbikarsigur Shiffrin

epa09540549 Mikaela Shiffrin of the United States in action during the Women's Alpine Skiing World Cup race in Soelden, Austria, 23 October 2021.  EPA-EFE/PHILIPP GUELLAND
 Mynd: EPA-EFE - EPA

Sjötugasti heimsbikarsigur Shiffrin

24.10.2021 - 16:58
Heimsbikarinn í alpagreinum hófst í Austurríki um helgina þegar keppt var í stórsvigi. Þar tryggði hin bandaríska Mikaela Shiffrin sér sinn sjötugasta heimsbikarsigur og er hún sú þriðja í sögu heimsbikarsins til að ná þeim áfanga.

Fyrsta keppni vetrarins fór fram í Sölden í Austurríki. Í stórsviginu fara keppendur tvær ferðir í gegnum brautina og gildir samanlagður tími. Eftir fyrri ferðina var ríkjandi heimsbikarmeistari í stórsvigi, Lara Gut-Behrami frá Sviss, í forystu en þó aðeins tveimur hundraðshlutum á undan Mikaelu Shiffrin. Shiffrin náði frábærri seinni ferð, kom í mark á 2 mínútum og 7,22 sekúndum samanlagt, og endaði 14 hundraðshlutum á undan Gut-Behrami. Petra Vilhova frá Slóvakíu endaði þriðja. 

Mikaela Shiffrin, sem er 26 ára, hefur nú fagnað sjötíu sigrum í heimsbikarnum í alpagreinum og er hún aðeins þriðja til að ná þeim áfanga á eftir Svíanum Ingemar Stenmark, sem vann 86 heimsbikarsigra á sínum ferli, og Bandaríkjakonunni Lindsay Vonn sem vann 82 en Vonn lagði skíðin á hilluna árið 2019. 

 

epaselect epa09542705 Marco Odermatt of Switzerland in action during the first run of the Men's Giant Slalom race of the FIS Alpine Ski World Cup season opener on the Rettenbach glacier, in Soelden, Austria, 24 October 2021.  EPA-EFE/GIAN EHRENZELLER
 Mynd: EPA-EFE - KEYSTONE

Karlarnir kepptu einnig í stórsvigi í Sölden í dag. Svisslendingurinn Marco Odermatt var þriðji eftir fyrri ferðina en vann sig upp í efsta sætið eftir seinni ferðina og kom í mark samanlagt á 2 mínútum og 5,94 sekúndum. Þetta var fimmti sigur Odermatt í heimsbikarnum og sá þriðji í stórsvigi. Heimamaðurinn Ronald Leitinger varð annar og Slóveninn Zan Kranjec þriðji.

Tengdar fréttir

Skíði

Shiffrin orðin sú þriðja sigursælasta