Fjöldi starfsfólks úr kvikmyndaiðnaðinum safnaðist saman í borginni Albuquerque í Nýju Mexíkó og kveikti á kertum til minningar um Hutchins að því er fram kemur á vef breska ríkisútvarpsins.
Sandie Kay, sem starfar við kvikmyndagerð í borginni, segir Hutchins hafa verið afar þróttmikla og fráfall hennar gríðarlegt áfall. Annar samstarfsmaður hennar, Lane að nafni sagði það hafa verið heiður að vinna með Hutchins.
Margir báru spjöld með áletrunum þar sem krafist var aukins öryggis á tökustöðum. Í máli einhverra kom jafnframt fram að banna mætti notkun raunverulegra vopna við kvikmyndagerð.
Skotvopn algeng á tökustöðum
Í gögnum málsins kemur fram að aðstoðarleikstjórinn Dave Halls vissi ekki að byssan sem hann afhenti leikaranum Alec Baldwin væri hlaðin. Það var skot úr þeirri byssu sem varð Halynu Hutchins að bana og særði leikstjórann Joel Souza.
Skotinu var hleypt af inni í kofa sem er hluti leikmyndarinnar að því er fram kemur í vitnisburði starfsmanna. Þeir eru hluti þess hóps sem yfirgaf tökustaðinn vegna bágra vinnuaðstæðna og tafa á launagreiðslum.
Raunveruleg skotvopn eru oft notuð í kvikmyndagerð en þá hlaðin púðurskotum sem gefa frá sér hvell og blossa. Andlát af völdum voðaskota eru þó fátíð í kvikmyndagerð.
Mörgum er í fersku minni þegar Brandon Lee, 28 ára gamall sonur bardagakappans Bruce Lee lést eftir að hann varð fyrir skoti úr leikmunabyssu við gerð myndarinnar The Crow árið 1993.