Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Míla verður ekki seld til Kína eða Rússlands

24.10.2021 - 19:37
Mynd: RÚV / RÚV
Franska sjóðastýringarfyrirtækið Ardian sem gert hefur samkomulag um kaup á Mílu hyggst eiga fyrirtækið í áratugi. Þetta segir framkvæmdastjóri innviðafjárfestinga Ardian í Norður-Evrópu. Ekki komi til greina að selja hlut í Mílu til rússneskra eða kínverskra fyrirtækja. 

Kaupverð Mílu er sjötíu og átta milljarðar króna. Höfuðstöðvar kaupandans, sjóðastýringarfyrirtækisins Ardian, eru í París. Dominique Senequier stofnaði fyrirtækið 2013 en það var upphaflega fjárfestingaarmur tryggingafélagsins AXA, eða allt frá 1996.

Björt framtíð fyrir íslenskan efnahag

Tvær ástæður eru fyrir kaupum Ardian á Mílu. „Okkur finnst mjög aðlaðandi að fjárfesta á Íslandi. Landið er auðugt og hagkerfið á bjarta framtíð fyrir sér. Þjóðin er vel menntuð og gott jafnvægi í þjóðfélaginu. Við viljum hafa stöðugleika og góðar horfur þar sem við fjárfestum. Í öðru lagi þykir okkur Míla afar spennandi tækifæri. Það er spennandi af því það er svigrúm til að bæta sig,“ segir Daniel Graf von der Schulenburg, framkvæmdastjóri innviðafjárfestinga Ardian í Norður-Evrópu.

Ardian hyggist nýta þekkingu sína og fjárfesta í fyrirtækinu og innviðum. Aukin áhersla verði lögð á að koma ljósleiðaratengingu á í dreifðari byggðum og enn fremur að halda áfram uppbyggingu 5G-farsímakerfis. Með sölunni er Míla ekki lengur dótturfyrirtæki Símans og forráðamenn Ardian hyggjast bjóða öllum fjarskiptafyrirtækjum í viðskipti. 

„Við viljum bjóða öllum aðgang og samnýtingu innviða og þannig gefa Íslendingum kost á sem hagkvæmastri nettengingu,“ segir Daniel.

Verðið eigi ekki að hækka heldur eigi að nást betri nýting á innviðum. 

Telur þú mögulegt að Ardian myndi íhuga, í framtíðinni, að selja hluta af Mílu eða fyrirtækið í heild sinni til kínverskra eða rússneskra fyrirtækja?

„Nei, það verður aldrei. Við fjárfestum til mjög langs tíma. Það eru tvær ástæður fyrir því. Önnur er sú að næstum allir fjárfestar okkar eru tryggingafélög, lífeyrissjóðir eða fjárfestingarsjóðir ríkja. Meirihluti sjóðanna er evrópskur. Þessir fjárfestar horfa til mjög langs tíma. Lífeyrissjóðirnir þjóna langtímalífeyrissparnaði. Tryggingafélögin reyna ef til vill að endurgreiða lífryggingar. Hin ástæðan er að við erum einn fremsti innviðafjárfestir Evrópu. Við höfum fjárfest í fleiri en 50 innviðaeignum í næstum öllum Evrópuríkjunum. Þegar fjárfest er í innviðum þarf langtímasjónarhorn því það tekur langan tíma að byggja upp innviði, að fjármagna slíka uppbyggingu, og það tekur langan tíma að endurheimta þá fjárfestingu,“ segir Daniel.

Getur þú sagt hve lengi þið verðið á Íslandi, hið minnsta?

„Já. Sjóðirnir okkar eru til fimmtán ára og það er mögulegt að lengja þann tíma. Einnig byggjum við mjög upp svokallaða framhaldssjóði. Líklega verðum við hér í marga áratugi,“ segir Daniel.

Gert er ráð fyrir að íslenskir lífeyrissjóðir kaupi samtals tuttugu prósent í Mílu. Daníel segir að viðræður við lífeyrissjóðina hafi staðið lengi. Samkomulag sé í höfn en það eigi eftir að innsigla með fjármunum.