Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Kolanámur geti breyst í jarðvarmavirkjanir

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Ágúst Ólafsson
Vonir standa til þess að nýr sjálfbærnistaðall, þróaður af Íslendingum, auðveldi fjármögnun nýrra jarðhitaverkefna víða um heim. Heimsþing Alþjóða jarðhitasambandsins hefst í Hörpu í dag og von er á 1100 gestum til að ræða það nýjasta í nýtingu jarðvarma. 

 

Bjarni Pálsson, formaður undirbúningsnefndar Íslands á ráðstefnunni, segir ýmislegt hafa gerst í jarðhitamálum frá síðasta þingi sem fór fram fyrir fimm árum. „Það má segja að vaxtarsprotarnir séu víða, það er bæði verið að færa jarðhitanýtingu til fleiri landa sem ekki hafa verið að nýta jarðhita áður, það er mikil uppbygging að eiga sér stað til dæmis í Austur-Afríku.“

Bora dýpra og nýta lægri hita

Þá séu lönd sem lengi hafa nýtt jarðvarma farin að nýta hann betur. „Þau eru farin að færa sig dýpra í jörðina, í meiri orku og einnig er verið að leita meira í lægri hita og bæta nýtingu á svæðum þar sem er hiti upp á 30-40 gráður,“ segir hann. Áður hafi ekki talist nægilega fýsilegt að nýta slík svæði, en nú sé það gert víða í Evrópu, t.d. í Finnlandi, „þetta er að eiga sér stað víða um Evrópu, til dæmis í gömlum kolanámum og olíuborholum,“ segir hann. Hugmyndir hafa verið uppi um að framleiða jarðvarma í breskum námum. 

Til viðbótar nefnir hann aukna áherslu á ýmsa hliðarvinnslu. Til dæmis sé verið að nota afgangsorku til að framleiða matvæli eða rafeldsneyti, nú eða koma upp jarðböðum. 

Bindur vonir við að sjálfbærnistaðall hjálpi jarðhitanum

Eitt af því sem helst hefur staðið uppbyggingu jarðhita fyrir þrifum, að sögn Bjarna, er tregða fjárfesta við að taka kostnaðarsama áhættu. Hann telur að nýr sjálfbærnistaðall, sem hefur verið þróaður hér út frá sambærilegum, alþjóðlegum staðli fyrir vatnsaflsvirkjanir, geti verið liður í því að treysta fjármögnun til framtíðar og ná breiðari sátt meðal umhverfissamtaka, fjárfesta og fleiri um nýtingu jarðhita. Staðallinn gefur verkefnum einkunn á nokkrum sviðum sem lúta að samfélagi, náttúru og réttindum starfsfólks.

Að þróun hans komu samtök á borð við Transparency international, sem berjast fyrir auknu gagnsæi, og Alþjóðlegi náttúruverndarsjóðurinn World Wildlife fund. Þá geti náðst mælikvarði á hvort verkefni séu hæf til að fá svokallaða græna fjármögnun. „Það er auðvitað tól sem mörg stjórnvöld eru að reyna að vinna að núna, hvernig eigi að meta góð verkefni sem styðja við aðgerðir gegn loftslagsbreytingum sem öll ríki heims standa nú frammi fyrir.“ Þá vonar hann að græn fjármögnun geti bætt samkeppnisstöðu jarðhitaverkefna gagnvart öðrum orkugjöfum sem ekki eru jafn umhverfisvænir, svo sem jarðefnaeldsneyti.  

Stórviðburður

Heimsþingið er haldið á fimm ára fresti. Stærðarlega séð er það á pari við Hringborð Norðurslóða. Auk 1100 gesta í raunheimum er gert ráð fyrir annarri eins þátttöku í netheimum. Þá ætla 250 sérfræðingar frá 100 löndum að deila þekkingu sinni á jarðvarma.