Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Jarðsprengja varð ungmennum að bana í Senegal

24.10.2021 - 03:17
Mynd með færslu
 Mynd: Mathieu Damman - Wikimedia Commons
Sex ungmenni létu lífið þegar þau óku á hestakerru sinni yfir jarðsprengju í Casamance héraði í Senegal á föstudagskvöld. Jarðsprengjan hafði endað á yfirborðinu eftir úrkomu í héraðinu, hefur AFP fréttastofan eftir Yankouba Sagna, bæjarstjóra í Kandiadoiu, nærri landamærunum að Gambíu.

Sagna segir ungmennin hafa verið á leiðinni heim eftir bænastund á föstudag. Jarðsprengjan er gömul að hans sögn, og eru nokkrar slíkar enn á ekrum. Þegar rignir komast þær upp á yfirborðið, og hafa yfirvöld krafist þess að svæðið verði tæmt af jarðsprengjum.

AFP segir Casamance hérað það svæði þar sem langvinnustu erjur samtímans eru í landinu. Stríðandi hópar hafa tekist á þar síðan 1982. Þúsundir hafa týnt lífi í átökunum.

Tæpar tvær milljónir manna búa í Casamance héraði. Héraðið var áður hluti af nýlendum Portúgala í Vestur-Afríku, ásamt því svæði sem nú tilheyrir Gíneu-Bissau. Nú tilheyrir Casamance Senegal, sem áður var nýlenda Frakka, auk þess sem hluti af héraðinu nær inn á landsvæði Gambíu. 

Héraðið er afskekkt og fjarri höfuðborginni Dakar. Íbúum þess þykir stjórnvöld mismuna sér, og hefur það kynt undir sjálfstæðisröddum í héraðinu. Átök hófust árið 1982 þegar sjálfstæðissinnar þustu út á götur eftir að stjórnarherinn kvað niður mótmæli. Við og við blossa átök upp að nýju í héraðinu.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV