Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Fagnar skilyrðum við sölu Mílu en vill fleiri

24.10.2021 - 12:46
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Formaður Viðreisnar segir að ríkisstjórnin hafi verið sein að taka við sér þegar kemur að því að tryggja þjóðaröryggi með sölunni á Mílu. Hún fagnar því þó að skilyrði verði sett um að búnaður sé í íslenskri lögsögu og upplýst verði um raunverulega eigendur. Íslensk stjórnvöld og þjóðaröryggisráð verða að tryggja að þjóðarhagsmunum verði ekki stefnt í voða vegna sölunnar á Mílu.

 

Síminn og alþjóðlega sjóðastýringarfyrirtækið Ardian hafa gert samkomulag um að fyrirtækið kaupi Mílu á 78 milljarða króna. Míla á og rekur víðtækasta fjarskiptanet landsins.  Ardian tekur yfir skuldir Símans og hagnast Síminn um 46 milljarða króna á viðskiptunum.

Vinna með Seðlabanka að draga úr áhrifum á gjaldeyrismarkað

Þetta er stærsta erlenda fjárfestingin hér á landi síðasta áratug og felur í sér verulegt innflæði gjaldeyris. Fram kemur í tilkynningu til Kauphallar að Seðlabanki Íslands eigi í sérstökum tilvikum í tvíhlíiða viðskiptum með gjaldeyri framhjá markaðinum. Salan á Mílu séu viðskipti af þeirri stærðargráðu sem geti valdið tímabundnum flæðisfrávikum eða óvenjulegum skammtímahreyfingum á gengi krónunnar, ef þeim yrði beint inn á gjaldeyrismarkaðinn. Jafnframt segir í tilkynningunni að ef af kaupunum verði ætli Síminn og Ardian að vinna með Seðlabankanum að því að viðskiptin hafi sem minnst áhrif á gjaldeyrismarkaði. 

Í faraldrinum hefur gengið töluvert á gjaldeyrisforða Seðlabankans og heimildarmenn fréttastofu segja að verði af sölunni á Mílu muni það hjálpa til við að auka við forðann á ný. Viðbúið er að viðskiptin hækki gengi krónunnar en Seðlabankinn getur nýtt gjaldeyrisforðann í mótvægisaðgerðir. 

Stjórnarandstaðan átti fund með forsætisráðherra

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, gagnrýndi í síðustu viku að formenn stjórnarandstöðuflokka hefðu ekki verið upplýstir um hvernig stjórnvöld hyggist tryggja þjóðarhagsmuni við sölu á svo mikilvægum innviðum sem salan á Mílu er. Þorgerður óskaði eftir fundi með forsætisráðherra um málið. Sá fundur var á fimmtudaginn.

„Það var ýmsu svarað á þessum fundi en það er ljóst að þær athugasemdir sem ég gerði hafa ýtt við málum. Þau eru að reyna að vinna þetta svolítið eftir á. En það er verið að fara í ákveðna hluti sem eru mikilvægir. En það eru engu að síður ákveðnir þættir út frá þjóðaröryggismálum sem þarf að fara betur yfir vegna aðilaskipta. Ég tel mikilvægt að þessir flokkar sem nú eru að vinna að ríkisstjórnarmyndun taki það fram í sínum ríkisstjórnarsáttmála hvernig þau ætla að gæta að þjóðaröryggi bæði í þessu máli sem öðrum,“ segir Þorgerður Katrín. 

Samgönguráðherra sagði í fréttum RÚV í gær að íslensk stjórnvöld hefðu gert þá kröfu við söluna á Mílu að tryggt yrði að tiltekinn búnaður yrði í íslenskri lögsögu og ávallt yrði upplýst um raunverulega eigendur. Einnig að búnaðurinn væri frá ríkjum sem Ísland er í varnarsamstarfi við. 

„Þetta er vissulega hjálplegt. Ég hefði gjarnan viljað fá þessar upplýsingar strax fram. Það segir mér það að þau hafa farið í þessa vinnu eftir á. Það er bara jákvætt og ég fagna því. En engu að síður eru ákveðnar spurningar. Ég dreg það fram m.a. út frá mínu starfi í NATO-nefndinni að það skiptir máli að það sé farið yfir ákveðna þætti bæði varðandi eigendur. Ég er ekki að fetta fingur út í það hverjir það eru sem eiga þetta, heldur eingöngu að Ísland sé búið að gæta að sínu þjóðaröryggi þegar kemur að netöryggismálum sem og öðrum öryggisþáttur fyrir landið okkar,“ segir Þorgerður Katrín. 

Veruleg teikn á lofti

„Ég vil einfaldlega að það sé farið yfir þá grundvallarþætti sem snerta okkar þjóðaröryggi þegar aðilaskipti verða. Ég er ekki að fetta fingur út í þessi aðilaskipti sem slík, einfaldlega að íslensk stjórnvöld vinni heimavinnuna sína þegar kemur að þjóðaröryggi okkar Íslendinga, öryggis- og varnarmálum. Það eru veruleg teikn á lofti í dag. Það eru ákveðnar hættur sem við verðum að tryggja að við verðum ekki fyrir. Þess vegna ætlast ég til að þjóðaröryggisráð, ríkisstjórnin, sinni því hlutverki sem þeim beri að gegna. Framan af var það ekki að gera það en núna hafa þau aðeins brett upp ermar og ég fagna því,“ segir Þorgerður Katrín.