Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Eiturgufur berast frá logandi gámaskipi við Kanada

24.10.2021 - 13:02
Mynd með færslu
 Mynd: SURFRIDER FOUNDATION CANADA©Rit
Sextán úr áhöfn gámaflutningaskipsins Zim Kingston var bjargað í land eftir að eldur kviknaði í tíu gámum um borð. Eiturgufur berast frá skipinu sem flytur kemísk efni og liggur undan strönd Kanada. Fimm úr áhöfninni eru enn í skipinu.

Samkvæmt upplýsingum kanadísku strandgæslunnar sem bjargaði áhöfninni segir að skipið liggi nú við festar undan Kyrrahafsströnd Kanada. Ekki er vitað hvað kveikti eldinn en um 52 tonn af kemískum efnum eru í farmi skipsins.

Frá því berast eiturgufur en tveir gámanna sem logar í, innihalda eiturefnið Kalíum Amyl Xanþik sem notað er við námuvinnslu. Yfirvöld segja þó enga hættu á ferðum fyrir fólk í landi en ástandið er endurmetið í sífellu.

Skipið var á leið frá Suður-Kóreu til Vancouver í Bresku Kólumbíu þegar tilkynnt var um eldinn. Mikill viðbúnaður er við skipið og allt kapp lagt á að slökkva eldinn og sækja gáma sem féllu frá borði í óveðri á föstudaginn.

Hættusvæði er í einnar sjómílu radíus umhverfis skipið meðan björgunaraðgerðir standa yfir.  

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV