Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

ASÍ hafi sent tölvupóst eftir ákall frá starfsfólki

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Samsett
Drífa Snædal, forseti Alþýðusambands Íslands, segir ásakanir Birgis Jónssonar, forstjóra Play um að ASÍ standi í „skotgrafahernaði“ og óski eftir hryllingssögum starfsmanna vera alvarlegar og ósannar. „Inntakið í bréfinu sem við sendum flugliðum Play var að við buðum fram aðstoð okkar vegna þess að við höfðum fengið nafnlausar ábendingar. Við vildum koma því á framfæri að það væri hægt að tala við okkur í trúnaði og að við værum til þjónustu reiðubúin,“ segir Drífa.

Hún segir fullyrðingu Birgis um að ASÍ hafi sent bréf á starfsfólk að fyrra bragði ekki standast skoðun.

Standa við að stéttarfélagið sé „gult félag“

„Ástæðan fyrir því að við skilgreinum ÍFF sem Play hefur samið við sem gult stéttarfélag, er að það voru engir flugliðar sem komu að þessu félagi. Þetta félag var í rauninni skúffufélag þegar þessir kjarasamningar voru gerðir,“ segir Drífa.

Starfsfólk hafi ekkert haft með kjarasamninga að segja

„Félagsmennirnir höfðu ekkert um það að segja hvernig þessi kjör voru til komin, auk þess sem samið er um 30% lægri kjör heldur en voru hjá Wow Air“ segir Drífa. Þetta segir Drífa Play hafa auglýst sjálft til sinna fjárfesta og noti lágan launakostnað sem samkeppnisforskot.

Í viðtalinu fyrr í dag, sagði Birgir ítrekað að ASÍ skorti efnisleg rök. Drífa segir þau búin að margkynna sínar áherslur.

“Birgir verður bara að lesa sér til um það frekar hverjar eru okkar áherslur. Svo stendur boðið um að hitta okkur og Flugfreyjufélag Íslands. Hann hefur ekki þáð það boð. Því miður. En það boð stendur“

„Okkar sýn er skýr; við krefjumst þess að gerðir séu kjarasamningar á félagslegum grunni, að þau sem eiga að vinna eftir samningunum komi að þeim og stéttarfélög séu óháð atvinnurekendum. Þessi barátta er í algleymi en hún ber betri árangur ef við náum auknu samtali við starfsfólk Play og það njóti milliliðalauss stuðnings frá alvöru stéttarfélagi með alvöru bakhjarl,“ segir í yfirlýsingu Drífu og Guðlaugar Líneyjar Jóhannsdóttur, formanns Flugfreyjufélags Íslands.

Bréfið birt í heild sinni

Hér að neðan má sjá yfirlýsingu frá ASÍ og Flugfreyjufélaginu, þar sem bréfið til starfsfólks Play er birt í heild sinni: