Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Segir kennara hafa komið í veg fyrir manndráp

Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Starfsmenn Borgarholtsskóla komu hugsanlega í veg fyrir dauðsföll með því að fara á svig við það sem þeir lærðu á sjálfsvarnarnámskeiði og grípa inn í vopnuð átök sem brutust út í skólanum í janúar, þetta er mat Ársæls Guðmundssonar, skólameistara sem flutti erindi um atburðinn á námsstefnu Landssambands slökkviliðsmanna í dag. Mikill viðbúnaður var vegna árásarinnar og sérsveitin meðal annars kölluð til. 

Átökin stigmögnuðust skyndilega

Átökin áttu sér stað á háannatíma í skólanum og voru einhvers konar uppgjör milli tveggja hópa ungra manna. Ársæll segir að skólasamfélagið sé fjölbreytt og nemendur komi úr allskyns aðstæðum, sumir eigi erfitt og stundum komi til gangaslagsmála eða einhvers konar átaka. „Þannig byrjaði þetta og starfsfólk reyndi að skakka leikinn. Svo birtast allt í einu einhverjir tveir fullorðnir menn, utanaðkomandi, og þá fer allt í rugl. Slagsmálin breyttust allt í einu í lífshættulegar aðstæður,“ segir Ársæll.  

„Blóð úti um allt“

Þessir menn voru vopnaðir hafnaboltakylfu, stórum veiðihnífum og járnstöngum. „Þessir tveir aðilar koma inn og gera allt vitlaust eftir að búið er að róa þessa tvo hópa. Við vitum ekkert hver er að lemja hvern eða á móti hverjum, þetta er bara eitt kaós, blóð úti um allt, glerbrot úti um allt og allt í fári,“  segir Ársæll. Mennirnir beittu þessum hnífum og afklippum úr járni sem teknar höfðu verið úr verknámsstofunni. 

Öngþveiti 

Starfsfólki fannst við þessar aðstæður líða heil eilífð þar til viðbragðsaðilar komu á vettvang, þegar þeir komu náðu þeir fljótt stjórn á aðstæðum og yfirbuguðu árásarmenn á fumlausan og öruggan hátt að sögn Ársæls. Einn árásarmannanna slapp þó og hljóp fyrir hornið á skólanum vopnaður veiðihnífnum. Öngþveitinu var því ekki lokið og menn óttuðust að maðurinn myndi koma aftur inn um einhvern af 19 inngöngum skólans og ráðast að fólki.

Mynd með færslu
 Mynd: Höskuldur Kári Schram - RÚV
Frá vettvangi.

Kennarar hafi bjargað nemendum

Ársæll segir að fyrstu viðbrögð starfsfólks hafi skipt sköpum. „Við vorum búin að vera ári áður á sjálfsvarnarnámskeiði og ég man alltaf að hann sagði, sérfræðingurinn, ef það er hnífur á lofti þá hlaupið þið burt, ef við hefðum farið eftir því hefðu verið þó nokkur mannslát eftir þennan dag, þarna bara brugðust kennarar við og björguðu nemendum.“

Ársæll segir að svona atvik geti allt eins komið upp í öðrum skólum og að það sé mikilvægt að fólk sé viðbúið. „Þetta snertir okkur öll og getur gerst aftur þannig að við þurfum að læra af þessu.“ 

Mikilvægt að æfa viðbrögð

Atvikið sat mjög í nemendum skólans og kennurum. Einn kennaranna lýsti því svo: „Það sem situr eftir eru ljótar svipmyndir og hughrif um algjöra fyrringu, heift og stjórnleysi sem er mér óskiljanleg. Mér finnst ég hafa upplifað eitthvað sem segir mér að ósýnileg lína eða sáttmáli sé nú rofinn og vissan um friðhelgi í skólasamfélaginu ekki lengur sjálfsögð.“ 

Öryggisviðbúnaður og eftirlit hefur verið hert í skólanum og aðgengi að honum minnkað. Ársæll segir mikilvægt að æfa viðbrögð við svona atvikum, gátlistar skili litlu. Þá segir hann að öryggisviðbúnaður og eftirlit hafi verið hert í skólanum og aðgengi að honum minnkað.